146. löggjafarþing — 60. fundur,  26. apr. 2017.

framlög til þróunarmála.

[15:31]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Ég vil ítreka það sem ég hef sagt að við erum hvorki að lækka hlutföllin né krónutöluna. Við erum að stórauka krónutöluna og við höfum smám saman á undanförnum árum hækkað hlutföllin. (RBB: Það snýst ekki um …) En ég hef rakið það að okkur hefur ekki á undanförnum tekist að uppfylla þau markmið sem við höfum sett okkur. Það er miður. Ég verð að taka undir með hv. þingmanni að við sem þjóðfélag sem hefur tyllt sér efst á lífskjaralista í heiminum, við sem þjóðfélag sem framleiðir hvað mest á mann í heiminum, við skipum okkur þar meðal þeirra 10–15 þjóða sem mest verðmæti skapa á mann, við hljótum að þurfa að horfa til þess að láta meira af hendi rakna í málaflokka eins og þennan. (Gripið fram í.) Staðreyndin er sú (Gripið fram í.) í þessu samhengi …

(Forseti (UBK): Ræðumaður sem er í ræðustól hefur orðið.)

(Gripið fram í.) Staðreyndin er sú …

(Forseti (UBK): Forseti biður þingmenn um að gefa ræðumanni hljóð.)

Staðreyndin er sú að í þeirri áætlun sem núna liggur fyrir þá erum við að gera það. Við erum kannski ekki að gera eins mikið og hv. þingmaður hefði viljað og við (Forseti hringir.) náum (Gripið fram í.) ekki alþjóðlegum markmiðum okkar, (Forseti hringir.) enda ættu menn að þekkja það ágætlega hér í þessum þingsal (Forseti hringir.) þegar við höfum verið að ræða ríkisfjármálaáætlunina að (Forseti hringir.) peningarnir eru af skornum skammti. (Gripið fram í: Þetta er hneyksli.)