146. löggjafarþing — 60. fundur,  26. apr. 2017.

sveitarstjórnarlög.

375. mál
[15:41]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina. Í stuttu máli er ég hlynnt þessu frumvarpi. Ég kem úr borgarmálunum og þekki því stjórnsýslu Reykjavíkurborgar ágætlega og hef sjálf skoðanir á því hvernig hægt væri að hafa hana lýðræðislegri, straumlínulagaðri, hagkvæmari og slíkt. En mig langaði að koma hingað upp og segja af hverju ég held að þetta frumvarp sé gott. Ég held að það séu einmitt þeir sem vinna með stjórnsýsluna alla daga sem séu færastir um að meta hvernig það verður best úr garði gert. Það er ekki alltaf endilega ríkið sem veit best þar. Ég held að það sé mikið heillaspor að leyfa Reykjavíkurborg í þessu tilviki að vera sjálf með í fanginu hvernig þetta verður best úr garði gert þar sem kjörnir fulltrúar og embættismennirnir þar vita mest um það.

Mig langaði þá í því samhengi að fá að spyrja hæstv. ráðherra, því að ég tek fyllilega undir það sem fram kemur í greinargerð frumvarpsins varðandi sjálfstjórnarréttinn hjá sveitarfélögunum, hvort það væri kannski til framtíðar litið hægt að skoða að þetta ætti ekki bara við um Reykjavíkurborg. Af hverju á þetta ekki bara við öll sveitarfélögin sem fengju þá sama vald til sín til að ákveða þetta?