146. löggjafarþing — 60. fundur,  26. apr. 2017.

sveitarstjórnarlög.

375. mál
[15:45]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Þetta er svolítið óvenjulegt stjórnarfrumvarp vegna þess að hér er þá komið í stjórnarfrumvarpsbúning sérstakt áhugamál tiltekinna þingmanna eða stjórnmálamanna sem verið hefur á undanförnum árum, að ekki sé farin sú leið á Íslandi sem almennt er í nágrannalöndunum að eftir því sem bæir og borgir eru stærri séu lýðræðislega kjörnar stjórnir þeirra fjölmennari. Auðvitað má rökræða ýmiss konar viðmið í þeim efnum en almennt hefur það verið nálgunin í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við að þegar komið er upp í stærri sveitarfélög, bæi og borgir, sé eðlilegt að stjórnir þeirra sveitarfélaga séu mjög fjölskipaðar til þess að hleypa nærsamfélaginu að með sjónarmið sín og það sé margbreytilegt og kalli á að fjöldi fulltrúa sé umtalsverður og að þröskuldur fyrir því að ná kjöri sé lágur. Það verður hann sjálfkrafa með því að fjölga fulltrúum. Viðleitnin í þessa átt er sem sagt til að styrkja lýðræðið.

Nú man ég ekki eftir því að núverandi hæstv. ríkisstjórn og flokkarnir sem að henni standa hafi sérstaklega gengið fram með það mál fyrir kosningar að þrengja að fulltrúalýðræðinu. Það er auðvitað það sem lagt er til hér, að þrengja að fulltrúalýðræði í sveitarstjórnum. Þó reyndar aðallega bara sveitarfélagi, Reykjavík.

Ég er ekki hrifinn af þessu máli. Satt best að segja tel ég það mjög vitlaust. Ég tek ekki mark á því að langstærsta sveitarfélag landsins geti ekki látið það eftir sér í þágu virkara grasrótarlýðræðis og meiri nándar við íbúana að vera með sæmilega myndarlega fjölskipaða borgarstjórn. Ég einfaldlega tek það ekki gilt. Í stærstu bæjarfélögum annars staðar á Norðurlöndum, sem vissulega eru hundruð þúsunda, nokkur hundruð þúsund eða jafnvel upp undir milljón, er fjöldi kjörinna sveitarfulltrúa gjarnan á bilinu 50–80, ég man ekki alveg hvað. Ætli það séu ekki um 60 í Ósló. Þetta leiðir til þess að stjórnskipulagi er breytt og það er fámennari yfirstjórn eða borgarráð eða hvað menn vilja kalla það. Það er eiginlega regla fremur en undantekning að það eru allmargir kjörnir borgarstjórar. Það er einn aðalborgarstjóri og síðan allmargir kjörnir borgarstjórar, koma oft úr mismunandi flokkum, sem bera ábyrgð á ákveðnum málasviðum.

Við erum mjög langt á eftir að því leyti. Ef við ætlum ekki að stíga einhver skref í þessa átt í Reykjavíkurborg, hvar ætla menn þá að gera það? Ég gagnrýni líka þetta „stjórnarfrumvarp“, sem ég set eiginlega innan gæsalappa, þetta er greinilega aðeins sérstakt áhugamál nokkurra þingmanna Sjálfstæðisflokksins, eða er þetta sérstakt baráttumál Viðreisnar og Bjartrar framtíðar? Ég spyr. Ekki heyrði ég það í kosningabaráttunni. En við vitum af áhuga tiltekinna Sjálfstæðismanna á þessu. Ég gagnrýni að úr því að þetta er engu að síður stjórnarfrumvarp sé það svona aumlega fram borið. Greinargerðin er ekki beysin. Hún kemst aðeins inn á örk nr. 2. Það er allt og sumt sem fyrir þessu er haft. Einu rökin sem hér er komið með er að þetta eigi að vera á valdi sveitarfélagsins, að sveitarfélögin eigi að ráða þessu sjálf. Samt á einungis eitt sveitarfélag að fá aukið frelsi til að ráða sér sjálft með breytingu frá gildandi lögum og það er Reykjavíkurborg. Af hverju er þá ekki opnað á að næstu bæjarfélög þar fyrir neðan, sveitarfélög, megi líka fækka eða þurfi ekki að fjölga? Ef Kópavogur dettur nú yfir 50 þúsundin, á hann þá ekki að fá að ráða því sjálfur hvort hann hefur kannski áfram þriggja manna hreppsnefnd? Þá komast þrír stærstu flokkarnir inn og önnur sjónarmið ekki. Við skulum tala mannamál um þetta. Auðvitað þrengir þetta að því að mismunandi sjónarmið og fjölbreytni endurspeglist í umræðum, stefnumótun og stjórnsýslu sveitarfélaganna.

Rökin eru sem sagt þessi. Þetta er þannig upp sett í greinargerð þessa stjórnarfrumvarps, sem ég held að standist ekki þau viðmið sem á að fylgja stjórnarfrumvörpum, ég veit ekki betur en að það eigi að taka sérstaklega fram hvaða samráð hafi verið haft um málin og að það samrýmist stjórnarskrá og allt þetta, sniðmátið sem stjórnarfrumvörp eiga að fara inn í. Þessi greinargerð kemst hvergi inn í það. Hún er aðeins örfáar línu. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þó að í greinargerð með frumvarpi til sveitarstjórnarlaga (þingskjal 1250, 726. mál 139. löggjafarþings) séu færð fram tiltekin rök fyrir þeirri fjölgun borgarfulltrúa sem kveðið er á um í 5. tölul. 1. mgr. 11. gr. þykir ekki rétt í ljósi sjálfsstjórnarréttar sveitarfélaga að þvinga fram slíka fjölgun fulltrúa með lögum.“

Þetta er allt og sumt sem er lagt í það að rökræða málið, velta upp rökum með og á móti. Það á að henda út tiltölulega vel rökstuddri niðurstöðu sem var við lagasetningu á sínum tíma og þótti mjög hófsamleg, var í raun mikil málamiðlun, og teflt fram gegn því að það þyki rétt. Hverjum þykir það rétt? Er það almannarómur í landinu? Eða er það hæstv. ráðherra Jón Gunnarsson? Þykir honum rétt að Reykjavíkurborg þurfi ekki að fjölga borgarfulltrúum?

Þetta var þannig áður að þegar sveitarfélag fór upp fyrir 50 þús. íbúa átti fjöldinn að vera 15–27. Um leið og sveitarfélag náði 50 þús. íbúatölunni átti fjöldinn að vera að lágmarki sá sem hann er þá enn í Reykjavík. En nú búa í Reykjavík næstum 120 þús. manns, ekki satt? Það er rúmlega tvöfaldur sá fjöldi sem áður átti við. Þess vegna var það málamiðlun og tiltölulega vægt í sakirnar farið að halda sig við þá breytingu sem var lögfest á sínum tíma, á 139. löggjafarþingi.

Ég sé ekki að útgjaldarökin, sem eru þá hitt sem þarna er nefnt, eigi að fá að vega mjög þungt. Eða hafa menn ekki efni á fulltrúalýðræðinu? Hér er frumvarpið að grípa inn í málefni þessa sveitarfélags, eða sveitarfélaganna. Og það er athyglisvert orðalagið, því að það er hvergi formlega og í sérstökum kafla eins og á að gera farið yfir við hverja var haft samráð um samningu frumvarpsins. Það segir í upphafi:

„Frumvarp þetta er samið í innanríkisráðuneytinu en efni þess hefur verið kynnt forsvarsmönnum Sambands íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborgar.“

Hefur verið kynnt þeim. Þeir voru látnir vita af því að innanríkisráðuneytið væri að semja þetta frumvarp um málefni sveitarfélaganna. Með öðrum orðum: Þetta er ekki að þeirra ósk, ekki á grundvelli beiðni frá þeim aðilum. Nei, þetta er sérstakt áhugamál innanríkisráðuneytisins. Lesist: Hæstv. ráðherra Jóns Gunnarssonar.

Nú veit ég ekkert um það hvaða afstöðu Reykjavíkurborg eða núverandi borgarstjórn þar hefur, enda er það ekki endilega úrslitaatriði þessa máls, því að löggjafinn hefur í gegnum tíðina séð ástæðu til að setja um þennan þátt lýðræðisfyrirkomulagsins tiltekinn lagaramma, að í sveitarfélögum skuli með viðmiðun við íbúafjölda þeirra vera að lágmarki svo og svo margir í sveitarstjórn. 3, 5, 7, 9, 11, 15. Og hér hefur sem sagt staðið til að þeim fjölgaði í Reykjavíkurborg í þá tölu sem er í gildandi lögum, þ.e. 23 hið minnsta.

Mér finnst það ekki neinn nauðungarkostur þegar þarna er hvort sem er heilmikið svigrúm. Borgin þarf þá ekki að fara í nema þennan lágmarksfjölda sem væri samkvæmt gildandi lögum. Það eru mjög mörg góð og gild rök, og alveg sérstaklega held ég orðið í nútímanum, sem kalla á að við látum fyrirkomulag stjórnsýslu í svona mikilvægum einingum eins og sveitarfélögin og nærsamfélagið eru endurspegla fjölbreytileika samfélagsins betur en hann gerir ef að þessu er þrengt með tiltölulega fáum kjörnum fulltrúum sem myndar hærri þröskulda fyrir einstaka aðila með einstök baráttumál eða sjónarmið til að komast inn og ná kjörnum fulltrúum.

Rökin fyrir þessu máli eru sem sagt að mínu mati ekki tæk. Þau halda ekki, duga ekki. Frumvarpið er aumt, aumlega fram borið. Það er ekki sómi að stjórnarfrumvarpi sem afgreiðir hlutina á svona ódýran hátt. Allra síst finnst mér það viðeigandi þegar í hlut eiga eins mikilvæg svið og lýðræðisfyrirkomulagið sjálft og hvernig um það er búið, hvort heldur er í sjálfu sér á vettvangi sveitarstjórna eða Alþingis.

Ég legg til að hæstv. ráðherra sveitarstjórnarmála kalli þetta frumvarp til baka. Ég held að við höfum annað þarfara að gera á þessu vori. Hann ætti að sjá sóma sinn í því að þetta er hálfgert frumhlaup, að henda þessu svona aumu hingað inn. Ég sé ekki hvað hæstv. ráðherra ætlar sér að vinna sérstaklega með því. Ef það er rétt sem mér býður í grun og í raun og veru kemur fram í greinargerð frumvarpsins, að þetta sé sérstakt áhugamál ráðherrans sjálfs, hann hafi engar beiðnir fengið um þetta, hvorki frá Sambandi sveitarfélaga né Reykjavíkurborg, en hins vegar látið þá vita af því, kannski hringt í þá og sagt þeim að hann væri að ganga frá svona frumvarpi í ráðuneytinu, af hverju er þá verið að standa í þessu? Ég spyr.

Ef borgarstjórn Reykjavíkur er málinu andvíg, segjum að öflugur meiri hluti í borgarstjórn Reykjavíkur sé andvígur þessu máli, hyggst ráðherra þá samt halda því til streitu að gera þetta? Jafnvel í andstöðu við borgina? Það væri gaman að vita. Er þetta svo brennandi hugsjónamál hjá hæstv. ráðherra? Hversu langt myndi hann ganga? Hafandi þó sagt og minnandi á það að ekki er endilega sjálfgefið að það ætti að ráða afstöðu Alþingis. Þá værum við að opna á að sveitarfélögin hvert og eitt, meira og minna öll, lítil og stór, ættu kannski að hafa miklu meira sjálfræði um þetta en er samkvæmt gildandi lögum. Menn hafa ekki að ástæðulausu ákveðið að setja um þetta tiltekinn lagaramma sem er þá stöðugur og liggur fyrir en er ekki þannig að sviptivindar í sveitarstjórnarpólitík geti þýtt að menn hendi sveitarstjórnarfulltrúum upp og niður eftir því hvernig vindar blása. Ég held að það væri ekki gott, alla vega þarf að vera einhver rammi þarna, af þeim augljósu ástæðum sem ég tel mig hafa farið yfir. Það eru góð og gild rök fyrir því að hlúa að fjölbreytni og virku lýðræði í nærsamfélaginu með því að hafa þröskuldana ekki háa, til að fá kjörna fulltrúa til að tala fyrir þeim málum sem menn bera fyrir brjósti hverju sinni.

Mín fyrsta tillaga er sú, frú forseti, að hæstv. ráðherra kalli málið til baka en varatillaga að ekkert verði gert með þetta ef þetta lendir inn í nefnd. Ef þetta kæmi þaðan yrði frumvarpið fellt.