146. löggjafarþing — 60. fundur,  26. apr. 2017.

sveitarstjórnarlög.

375. mál
[16:11]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég verð nú að biðjast afsökunar fyrst á að hafa ruðst inn á ræðustólinn áðan, ég var svo ákafur að ég fór eftir númerunum en ekki nöfnum, vona að þetta hafi ekki komið að sök.

En að þessu frumvarpi. Mér er auðvitað málið skylt sem nefndarmaður í umhverfis-, samgöngu- og sveitarstjórnarmálanefnd, ef við nefnum hana þannig. Ég spyr mig eins og aðrir ræðumenn hver tilgangurinn sé með þessu frumvarpi. Mér þætti gaman að heyra rökin sem voru flutt þegar fulltrúum var fækkað úr 21 í 15 á sínum tíma, af hverju það var gert, ég man það ekki eða heyrði það ekki, en hver voru þau rök? Voru það sparnaðarrök eða eitthvað allt annað? Ekki eru rökin væntanlega aukið lýðræði, og þó, hver veit? Það gæti verið að tilgangurinn sé að halda fulltrúum sem fæstum. Þá vantar mig einhverjar skýringar á því, því að frumvarpið er klætt í þann búning að það megi fjölga fulltrúum, þannig að þetta vegur hvað á móti öðru og gerir frumvarpið, án kannski mjög skýrrar greinargerðar eða raka, tortryggilegt.

Ég hefði gjarnan viljað heyra hæstv. ráðherra skýra frá því hver skoðun segjum núverandi meiri hluta borgarstjórnar eða borgarstjóra væri á þessu frumvarpi. Auðvitað munum við í umhverfis- og samgöngunefnd fá fulltrúa allra framboða í borginni til þess að svara ef þetta gengur svo langt, frumvarpið verður ekki dregið til baka. Það er enn þá sérkennilegra eða gerir þetta frumvarp tortryggilegt að það beinist eingöngu að einu sveitarfélagi.

Það er ágætt að ræða lýðræði í þessu sambandi. Menn hafa notað hér ágætisorð, nærlýðræði. Borgin hefur teygt sig núna yfir á annað sveitarfélag, Kjalarnes, yfir Mosfellsbæ. Það er eðlilegt bæði þess vegna og vegna þess að íbúum hefur fjölgað stórlega og mun gera það áfram á allra næstu árum að fjölga fulltrúum beinlínis, að það sé raunverulega bundið að fulltrúum skuli fjölga.

Það er tilhneiging til aukins lýðræðis í borginni. Við sjáum það á hverfaráðum, við borgarstjórn og tilraunum til þess að fá íbúana til þess að segja skoðanir sínar á framkvæmdum í hinum og þessum hverfum. Allt stefnir það í sömu átt að styrkja þetta nærlýðræði sem við nefnum svo. Það væri þá eðlilegt að hugsa þá hugsun til enda að hér væru raunveruleg hverfaráð með raunverulegum hverfastjórum sem hefðu heldur meiri völd en nú er sem snúast aðallega um það að raða peningum í nokkrar framkvæmdir, þ.e. það eru íbúakosningar, engir sérstakir hverfisstjórar. Það er þekkt úr mörgum borgum sem eru álíka stórar eða aðeins stærri en Reykjavík að þar háttar öðruvísi til.

Svo má nefna það líka að það eru komin æ fleiri verkefni á könnu sveitarstjórna almennt í landinu og þar með Reykjavíkur líka. Það er vandséð af hverju það mælir ekki með fleiri kjörnum fulltrúum þannig að það er ekkert óeðlilegt að þeir séu 21 eða 20 plús, fjarri því.

Það má líka velta fyrir sér, nota tækifærið og hugsa fyrir sér sameiningu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Kannski þyrfti þá að breyta lögum á nýjan leik, en það er freistandi að sjá fyrir sér eitt öflugt sveitarfélag með alvöru borgarstjórum, undirborgarstjórum, en það er auðvitað framtíðarmúsík sem ég ætla ekki að eyða tíma í hér. En allt hnígur þetta kannski í sömu átt, að búa til öflugar sveitarstjórnareiningar með nægilega mörgum kjörnum fulltrúum til þess að lýðræðið sé virkt, verkaskipting sé virk og, eins og áður hefur komið fram, að stjórnmálaflokkar eða íbúahreyfingar eða þverpólitískir listar hafi raunverulega möguleika á því að koma að stjórnum sveitarfélaga.

Til að gera þetta stutta mál enn nú styttra þá er ég sammála þeirri skoðun hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar að frumvarpið eigi að draga til baka. Ef það er ekki gert þá munum við auðvitað fjalla um það í nefndinni og kalla til okkar bæði fulltrúa samtaka sveitarfélaga og ólíkra framboða í borginni.