146. löggjafarþing — 60. fundur,  26. apr. 2017.

sveitarstjórnarlög.

375. mál
[16:17]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Afsakið, biðst forláts, var að koma af ársfundi Landsvirkjunar, stendur eitthvað í mér eftir þá heimsókn.

Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum sem hefur þann eina tilgang að breyta því að borgarfulltrúum fjölgi miðað við að það séu hlutfallslega jafn margir sveitarstjórnarmenn sem stýri stærsta sveitarfélagi landsins og stýri öðrum sveitarfélögum. Af einhverjum ástæðum virðist sveitarstjórnarráðherra ekki hugnast það. Ég velti því fyrir mér og klóra mér aðeins í kollinum yfir því að við séum yfir höfuð að ræða þetta mál. Þótt ríkisstjórnin hafi svo sem ekki verið sú öflugasta við að koma málum til umræðu á hv. Alþingi, þá eru alveg önnur mál sem væri hægt að ræða hér en þetta mál, sem virðist vera áhugamál hæstv. ráðherra. Er þetta endurflutningur á þingmannamáli? Hver er að biðja um þetta mál? Hver er þörfin á því að leggja fram þessa mjög svo sértæku breytingu á lögum um sveitarstjórnir? Er það Samband íslenskra sveitarfélaga sem hefur kallað eftir þessu eða er það borgarstjórn? Er það sveitarstjórn þessa eina sveitarfélags sem lögin munu hafa áhrif á? Ég minnist þess ekki að slíkt hafi verið gert.

Ég minnist þess reyndar að flokkssystkin hæstv. ráðherra hafi notað sér þá lagaheimild sem er til eða þau lög sem kveða á um fjölgun aðalmanna í pólitískum skylmingum við aðra í sveitarstjórn. Ég minnist þess ágætlega og hef heyrt ýmislegt í þá veru. En erum við á hv. Alþingi að taka þátt í einhverjum svoleiðis skylmingum í borgarstjórn Reykjavíkur þó að flokkssystkin hæstv. ráðherra séu einhverrar skoðunar og vanti einhverjar verjur í sitt vopnabúr? Ég skil þetta ekki.

Það eru einfaldlega efnisleg rök fyrir því að kveðið sé á um fjölda aðalmanna, fjölda sveitarstjórnarmanna í sveitarstjórnarlögum og að þeir séu í ákveðnu hlutfalli við það hversu margir búa í hverju sveitarfélagi. Hvaðan koma þessar tölur 15–27? Af hverju 15? Af hverju er það einhver heilög tala hjá hæstv. ráðherra ef hann telur að fjöldi íbúa skipti engu máli? Af hverju ekki bara að afnema neðri mörkin? Af hverju ekki bara núll? Eigum við kannski að hafa það einn, við getum kannski sammælst um það, eða þrjá? Það er oft gott að hafa þrjá í ráðum, ef sveitarstjórn telur það. Af hverju er ráðherra að skipta sér eitthvað af því fyrst að hlutfall kjörinna sveitarstjórnarfulltrúa á ekki að vera í neinu samræmi við íbúafjölda? Af hverju 27? Er það einhver aðdáun á Jimi Hendrix og Janis Joplin sem dóu 27 ára gömul? Hver er sú tala? Ég átta mig einfaldlega ekki á því.

Ég held að það sé verið að eyða tíma hv. Alþingis í einhvers konar einkamál hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sem er lagt fram af ekki neinni annarri þörf en þeirri að koma sér inn í einhvers konar deilur — varla deilur, ég ætla ekki einu sinni að virða það með svo göfugum orðum — í sveitarstjórn Reykjavíkur um fjölda fulltrúa, ég hef heyrt margt í þá veru, og að mínu viti stappar það grunsamlega nærri því að vera einfaldlega lýðskrum, að láta eins og það sé einhvers konar annarleg sjónarmið sem ráði för á bak við það hversu margir fulltrúar eigi að vera og að þeim sé fjölgað eftir gildandi lögum. Ég gef ekki mikið fyrir þann málflutning sem ég hef heyrt þó nokkuð víða þó að það sé bundið við flokka í minni hluta í borgarstjórn, sveitarstjórn Reykjavíkur.

Ég skil ekki þörfina á bak við það að leggja fram þetta frumvarp. Ég heyrði að hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson fór hér yfir möguleika á því hvað væri hægt að gera í raunverulegum breytingum innan sveitarstjórna eins og í Reykjavík með því að koma upp hverfastjórnum og skipta upp borgarstjórn í einhvers konar hverfastjórnir. Það eru frekar uppbyggilegar vangaveltur um það hvernig fjölda manna í sveitarstjórn sé best fyrir komið þar sem íbúar eru 50 þúsund eða fleiri. Það væri eitthvað sem væri gaman að taka þátt í, en ekki að ræða frumvarp sem gerir ekkert nema að breyta ákvæðum hvað varðar eitt sveitarfélag á landinu og sveitarfélagið sjálft hefur ekkert sérstaklega kallað eftir því. Sveitarfélagið er bara í undirbúningi með að fara eftir þeim lögum sem ríkja um þetta.

Það skyldi þó ekki vera að það ætti að gera þetta núna, koma þessu í gegn ári fyrir sveitarstjórnarkosningar þannig að einhverjir geti trommað upp með að það verði eitthvert kosningamál í sveitarstjórnum hversu margir sveitarstjórnarfulltrúar eigi að vera? Er það kannski málefnaþurrð minni hlutans í borgarstjórn Reykjavíkur sem veldur því að við erum að ræða frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum? Ég veit það ekki. Það er kannski skynsamlegasta skýringin sem ég hef heyrt á þessu.

Ég tel að fyrir breytingum sem þessum þurfi að vera mjög málefnalegar og ríkar ástæður til að stíga inn í það ferli sem lög gera ráð fyrir hvað varðar þróun stjórnsýslustigs hjá einni sveitarstjórn. Það held ég að sé ekkert léttúðugt mál. Hér er Alþingi farið að seilast inn á annað stjórnsýslustig og það eiga að vera meiri og málefnalegri rök að baki slíku en hæstv. ráðherra hefur lagt fram eða finna má í greinargerðinni.

Hvað ætlum við svo að gera í framtíðinni ef fleiri sveitarfélög ná þessu marki eða þegar sveitarfélög sameinast og það verða kannski mjög stór og fjölmenn sveitarfélög? Ætlar Alþingi með einhverjum sérbreytingum alltaf eftir því hvernig pólitískir vindar blása í ráðuneytisstól hvers tíma að stíga þar inn í? Það er ekki sérstaklega faglegt. Það er einfaldlega ekki faglegt.

Ég vildi óska þess að hæstv. ráðherra sæi sóma sinn í því að draga þetta frumvarp til baka, sæi að það er skynsamlegast að þetta fari bara fram eftir þeim brautum sem varðaðar hafa verið í lögum og allir gera ráð fyrir og gauki kannski einhverjum öðrum pólitískum baráttumálum að flokkssystkinum sínum í minni hluta í borgarstjórn Reykjavíkur, en væri ekki að blanda okkur á hv. Alþingi inn í það. Við skulum ekki fara að breyta lögum hér bara af því að. Ég myndi fara fram á það við hæstv. ráðherra að hann drægi frumvarpið til baka, eða munum við fara að sjá að hann gangi niður þingmannamálalista Sjálfstæðisflokksins frá síðustu ríkisstjórn, ætlar hann að fara að endurflytja öll þingmannamálin, eða eru þetta forgangsmálin sem á að fara í núna? Það þykir mér miður ef svo er. Ég hvet hæstv. ráðherra til að hugsa sinn gang aðeins og velta fyrir sér hver sé raunveruleg ástæða þess að hann leggur málið fram og einfaldlega draga það til baka.