146. löggjafarþing — 60. fundur,  26. apr. 2017.

sveitarstjórnarlög.

375. mál
[16:29]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingar á sveitarstjórnarlögum. Ég vil taka undir það sem sagt hefur verið í umræðunni, að þetta er eiginlega stórskrýtið mál. Þessi ríkisstjórn er orðin 100 daga gömul og hér koma fram fyrstu málin sem segja má að komi beinlínis frá ríkisstjórnarflokkunum vegna sérstakra pólitískra áherslna eða slíks.

Í gærkvöldi ræddum við mál um jafnlaunavottun sem kom frá Viðreisn og var í aðdraganda kosninganna þeirra stóra mál sem þau lönduðu síðan í gegnum stjórnarmyndunarviðræður og við ræddum í gær og munum vonandi halda áfram að ræða hér á eftir. Önnur mál sem við höfum verið að fjalla um frá ríkisstjórninni eru mál sem eru lögbundin af einhverjum ástæðum sem ríkisstjórninni ber að koma með, líkt og ríkisfjármálaáætlun eða þá EES-innleiðingar og annað slíkt. Nú er svo komið að við erum að sjá hér fyrsta pólitíska mál ráðherra Sjálfstæðisflokksins sem ekki er runnið undan rifjum kerfisins í þeim skilningi að ekki verði hjá því komist að mæla fyrir því eða leggja það fram. Hvaða mál er það? Er það pólitískt baráttumál sem rætt var sérstaklega í aðdraganda kosninga, sem var á límmiðum og bæklingum og plakötum með andlitsmyndum af forystumönnum Sjálfstæðisflokksins í aðdraganda kosninga? Nei, svo er ekki. Hér er alveg stórfurðulegt mál í raun um að ræða því að þetta er endurflutningur á þingmannamáli. Þetta er dellumál nokkurra þingmanna Sjálfstæðisflokksins frá síðasta þingi, frá síðasta kjörtímabili. Það eru nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem eru með það á perunni að vera í stjórnarandstöðu við meiri hluta borgarstjórnar í Reykjavík. Sem eru bara með það á heilanum að það hljóti að vera betra að hafa sem fæsta borgarfulltrúa vegna þess að þeir séu að meðaltali alveg ómögulegt fólk vegna þess að það vilji svo illa til að þeir séu að jafnaði ekki Sjálfstæðismenn. Svo kemur ráðherrann hér með algjörlega samhljóða mál og mál sem borið er upp af nokkrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins; Sigríði Á. Andersen, Birgi Ármannssyni, Brynjari Níelssyni, Guðlaugi Þór Þórðarsyni, Jóni Gunnarssyni, Söndru Dís Hafþórsdóttur, Unni Brá Konráðsdóttur, Vilhjálmi Árnasyni, öllum þáverandi hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, og er nú borið fram sem stjórnarfrumvarp.

Metnaðarleysið er í slíkum lægðum að maður á bara ekki eitt aukatekið orð. Það er algjörlega eðlilegt að menn beri fram dellumál í nafni síns flokks til þess að flagga og styðja við sitt fólk í sveitarstjórnum úti um land af einhverjum staðpólitískum ástæðum. En að bjóða Alþingi upp á að þetta sé orðið stjórnarfrumvarp er slíkt alvöruleysi gagnvart því hvað það þýðir að leggja fram mál í nafni ríkisstjórnar á hverjum tíma.

Ég spyr: Er þetta orðið mál sem er Viðreisn ætlar að fara að berjast fyrir? Ætlar Viðreisn að fara að berjast fyrir svona dellu innan úr Sjálfstæðisflokknum? Ætlar Björt framtíð að fara að berjast fyrir dellu innan úr innyflum Sjálfstæðisflokksins? Ég á bara ekkert aukatekið orð.

Ég vonast til þess að fá sjá hér þingmenn Bjartrar framtíðar og þá sem mæla hér fyrir og tala um breytt vinnubrögð og betri framtíð og allir betri og gagnsærri og frjálsari og hvað veit ég, að þeir ræði um mikilvægi þessa máls. Yngsti þingmaður sögunnar, ég vil að hann tali um þetta mál. Ég vil að hann segi þjóðinni af hverju þetta sé stjórnarfrumvarp sem hann ætlar að greiða atkvæði með. Fór þetta bara sisvona í gegnum stjórnarflokkana án þess að nokkur maður fengi rönd við reist? Er fólk ekki í lagi, virðulegur forseti? Hver bað um þetta mál?

Það sem við erum að glíma við á 21. öldinni, Sjálfstæðisflokknum til upprifjunar, er að styrkja lýðræðið í landinu. Það er að styrkja lýðræðið í landinu. Það er að efla möguleika almennings á hverjum stað á hverjum tíma til þess að hafa áhrif á sitt daglega líf, á stjórnskipan, á stofnanir samfélagsins, á örlög sín frá degi til dags, m.a. með því að styrkja fulltrúalýðræðið, með því að auka möguleika á því að ungt fólk komist til áhrifa, ungt fólk fái kosningarrétt, ungt fólk fái að hafa áhrif á möguleika sína til framtíðar. En hvað gerist þá? Þá kemur þessi nútímalega, frjálslynda, frábæra ríkisstjórn með dragfúlt mál innan úr Sjálfstæðisflokknum um það að fækka borgarfulltrúum. Fækka þeim.

Virðulegur forseti. Ég held að þessi della eigi rætur að rekja í þann tíma sem raunar er getið um í greinargerð með málinu, sem er hinn æsispennandi tími í sögu Sjálfstæðisflokksins 1978–1982, sem var náttúrlega bara svartur, hræðilegur tími í sögu Sjálfstæðisflokksins því að þá réð hann ekki yfir Reykjavík í smástund. Það var nú meira hörmungatímabilið að ráða ekki yfir Reykjavík. Og hefndarþorstinn frá 1982 er það sem leiðir menn enn þá áfram í það að búa til þetta mál. Fyrir hvern? Kannski fyrir þann sem var borgarstjóri þá í kjölfarið á þeim kosningum 1982. Snýst þetta um Hádegismóa, virðulegi forseti? Snýst þetta um þær gömlu hugmyndir um að best af öllu væri að það væri í raun og veru bara einn maður sem stjórnaði Reykjavík og hann héti Davíð Oddsson? Skyldi það vera?

Ég legg til að í lokaræðu sinni um þetta mál sýni hv. þm. Jón Gunnarsson, sem hefur oft komið mönnum á óvart hér í þingsal þegar spjótin hafa staðið á honum og menn hafa haldið því fram að hann væri maður ófriðar. Meira að segja sú sem hér stendur hefur stundum haldið því fram og hefur þá verið rekin til baka með það vegna þess að hæstv. ráðherra hefur sýnt það að hann getur á ögurstundu, á óvæntum tímapunkti, verið maður sátta. Það höfum við séð ítrekað. Ég skora á hann að vera sá maður núna og draga þetta mál til baka. Þetta mál verður ekki að lögum. Þetta mál er einfaldlega risaeðla, það er steingervingur, það er frá gömlum tíma og á ekkert erindi inn í umræður dagsins. Ekkert.

Hér sitja ágætir embættismenn ráðuneytisins í hliðarsölum. Að okkur skuli vera boðið upp á það að í greinargerð með þessu frumvarpi sé sagt: Verði borgarfulltrúum ekki fjölgað má vænta þess að útgjöld sparist hjá Reykjavíkurborg. Hvers konar málflutningur er þetta eiginlega? Hvar er þessi greinargerð? Má vænta þess? Ekki samkvæmt mínum gögnum frá fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar. Það er ekki boðlegt að ráðuneytið með ráðherrann í broddi fylkingar komi hér fram með fjárhagsrök sem standast enga skoðun.

Ég er með hér undir höndum rýningu á fjárhagslegum áhrifum vegna fjölgunar borgarfulltrúa frá fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar. Þar kemur fram að við fjölgun borgarfulltrúa muni verða fleiri breytingar á forystu Reykjavíkurborgar. Fyrstu varaborgarfulltrúar muni þar með fara af launaskrá. Breytingar munu verða á föstum launum annarra kjörinna fulltrúa ásamt breytingum á kostnaði vegna mætingar á fundi. Þannig að fjölgun borgarfulltrúa mun samkvæmt rýningu á fjárhagslegum áhrifum hafa í för með sér sparnað fyrir Reykjavíkurborg upp á 28 milljónir á ári, virðulegur forseti. Vissi ráðuneytið ekki af þessu? Hafði ráðuneytið þetta ekki undir höndum eða stóð bara aldrei til að verða sér úti um gögn frá Reykjavíkurborg? Stóð ekki til að tala við Reykjavíkurborg? Af hverju ekki? Var það vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn er í minni hluta þar? Ætla Viðreisn og Björt framtíð að taka þátt í þessum loddaraleik Sjálfstæðismanna til þess að styðja við grútmáttlausa stjórnarandstöðu í Reykjavík? Svo hugmyndasnauðan minni hluta hefur maður bara sjaldan séð eins og þann sem er að móast við meiri hluta Reykjavíkurborgar.

Ef þetta er liðsaukinn sem hæstv. ráðherra Jón Gunnarsson sér fyrir sér magnaðastan í því að hjálpa vinum sínum í Reykjavíkurborg í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga held ég að menn geti nú bara strax farið að pakka saman og sleppt því að prenta plaköt í aðdraganda kosninga. Ætlar ekki Viðreisn að bjóða fram, eða hvað? Ætlar Björt framtíð að bjóða fram?

Það er þannig að eftir því sem borgarfulltrúar eru fleiri eru meiri líkur á að litlir flokkar komist að með borgarfulltrúa.

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir það sem hér hefur verið sagt. Ég legg í fyrsta lagi til að þetta mál verði dregið til baka, það á ekkert erindi hér á Alþingi. Í öðru lagi og til vara legg ég til að málinu verði gleymt í hv. nefnd sem hefur það með höndum og að nefndin snúi sér að öðru og uppbyggilegra, að Alþingi Íslendinga gerist ekki leiksoppur svo billegra, pólitískra útspila sem hér eru á ferðinni. Ég vil líka brýna fyrir hæstv. ráðuneyti innanríkismála að taka ekki þátt í slíkum hallærisleik.