146. löggjafarþing — 60. fundur,  26. apr. 2017.

sveitarstjórnarlög.

375. mál
[17:03]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Maður réttlætir ekki ranglæti með öðru ranglæti. Ef það var svo slæmt þegar þetta var gert með stjórnarfrumvarpi síðast og það var svo rangt þá, af hverju er það ekki enn þá rangt nú? Fyrri aðferð við breytingu var slæm og af hverju að endurtaka slík vinnubrögð? Þetta frumvarp væri mjög eðlilegt ef það væri kannski einhver bókun frá Reykjavíkurborg þar sem væri verið að biðja um endurskoðun á þessu ákvæði, en ég þekki ekki slíkt og hef ekki heyrt að það sé á döfinni.

Umræða um kostnaðarmatið finnst mér áhugaverð. Það kemur í ljós að svona virka lög um opinber fjármál ekki. Núna er t.d. sú breyting í þessu miðað við núverandi ástand að það geta verið allt upp í 27 fulltrúar og þá er ekki óeðlilegt að það fylgi hver kostnaðurinn er fyrir ákveðinn fjölda borgarfulltrúa eftir því hvað borgin myndi ákveða. Ég sé ekki að það sé neitt flókið að hafa létt og lítið kostnaðarmat með þessu, menn setji ekki bara puttann upp í loftið og segi: Það verður eitthvað, líklega, veit ekki alveg, bara um það bil. Þannig viljum við ekki vinna.