146. löggjafarþing — 60. fundur,  26. apr. 2017.

sveitarstjórnarlög.

375. mál
[17:08]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Helstu rök hæstv. ráðherra fyrir því að hér sé flutt stjórnarfrumvarp með þessum sérkennilega aðdraganda er sú að síðast þegar sveitarstjórnarlögum hafi verið breytt hafi það verið stjórnarfrumvarp. Já, en hvernig varð það stjórnarfrumvarp til? Það varð til í kjölfar viðamikils nefndarstarfs þar sem fulltrúar sveitarfélaganna voru að sjálfsögðu burðarásar vinnunnar. Það var hluti af heildarendurskoðun laga um sveitarstjórnarmál. Þar er ólíku saman að jafna, þessu einkamáli, prívatáhugamáli ráðherrans, sem er unnið og lagt fram algerlega að hans frumkvæði án þess að hann hafi verið beðinn um það af einum eða neinum og án samráðs við sveitarfélögin. Þau eru látin vita af því. Þau rök halda nú ekki mikið.

Hæstv. ráðherra segist vera að auka lýðræðið. Hann er að auka lýðræðið með því að þrengja að fulltrúalýðræðinu. Hann er að auka lýðræðið með því að færa það frá Alþingi og frá kjósendum í Reykjavík, að velja sér fjölmennari og breiðari sveitarstjórn, yfir í hendurnar á sitjandi borgarfulltrúum, hvort af fjölguninni verði. Þetta tel ég vera að hafa endaskipti á hlutunum, algerlega. Það má auðvitað spyrja hæstv. ráðherra: Af hverju gengur hann þá ekki lengra, af hverju á þetta bara við í Reykjavík? Af hverju eykur hann ekki lýðræðið með því bara að leyfa sveitarfélögunum holt og bolt að ákveða hvort það eru einn, tveir eða þrír menn í sveitarstjórn? Hvað þarf íhaldið marga fulltrúa í Vestmannaeyjum til að passa nógu vel upp á meiri hlutann sinn þar? Þrjá? Þeir myndu örugglega bara vilja hafa þrjá, það er þægilegast. Þá gæru þeir jafnvel bara orðið einir í sveitarstjórn.

Það gengur auðvitað ekki upp að bera svona hluti á borð. Það er Alþingis að passa upp á grundvallarleikreglur lýðræðisins og setja rammann um lýðræðiskerfið. Þess vegna eru þessi ákvæði í lögum og hafa lengi verið. Það er engin tilviljun. Við skulum ekkert tala tæpitungu um (Forseti hringir.) að það geti verið freistandi fyrir þá sem eru búnir að koma sér fyrir í sitjandi sveitarstjórn, að standa vörð um sjálfa sig og sína flokka með því að reyna að hafa sem fæsta þar.