146. löggjafarþing — 60. fundur,  26. apr. 2017.

sveitarstjórnarlög.

375. mál
[17:15]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hver bað um að þetta yrði sett í lög síðast? Var það almenn skoðun sveitarstjórnarstigsins (SJS: Já.) að það væri heppilegt? (Gripið fram í.)Var samstaða meðal (Gripið fram í.)borgarfulltrúa í Reykjavík um að það yrði gert? Nei, (Gripið fram í.)það kemur líka fram í umsögninni sem ég vitnaði til áðan að það voru meira að segja deildar meiningar um það innan borgarstjórnar hver kostnaðaraukinn yrði af þessari fjölgun. Málið hefur verið umdeilt. Það má vel vera að það sé rétt hjá hv. þingmanni að það sé ástæða til að skoða þetta í víðtækara samhengi. Ég skal lýsa mig reiðubúinn til þess að skoða þetta í víðara samhengi. En ég tel að það sé mikilvægt að við gerum þessa leiðréttingu. Við erum ekki að hefta möguleika Reykjavíkurborgar á að fjölga borgarfulltrúum sínum fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar, en við erum að segja við yfirvöld á þeim bæ: Það er ykkar ákvörðun. Ef þið metið það svo að fjölga þurfi borgarfulltrúum þá hafið þið allt svigrúm til þess innan gildandi laga.

Svo má vel vera að við þurfum að skoða sveitarstjórnarlögin í víðara samhengi og sú vinna er reyndar þegar í gangi í nokkru tilliti í ráðuneytinu.