146. löggjafarþing — 60. fundur,  26. apr. 2017.

sveitarstjórnarlög.

375. mál
[17:33]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Alþingi gekk frá málinu eins og starfshópur, skipaður fulltrúum sveitarfélaganna og lagði til að yrði gert í víðtæku samráði við sveitarfélögin, með þeim skala sem hér er settur inn í 1.–5. tölulið 11. gr. gildandi laga í tilteknu rökrænu samhengi þar sem fjöldinn er stilltur af miðað við íbúaundirlagið í sveitarfélögunum. Það var nú það sem Alþingi gerði.

Hæstv. ráðherra segir að það séu deildar meiningar um þetta mál. Ja, ég veit það nú ekki. Það hefur bara einn maður talað fyrir þessu máli hér í salnum, það er hæstv. ráðherra. En það eru orðnir einir sex, átta þingmenn sem talað hafa á móti því. Ráðherrann fékk að vísu dálítið andsvar, meðsvar, frá flokkssystur sinni. Það er allt og sumt. Það hefur bara einn maður haldið ræður til stuðnings þessu máli. Það er ekki eins og menn brenni í andanum með honum í málinu. Ég hef ekki heyrt menn úr Bjartri framtíð, Viðreisn, Samfylkingu og Framsóknarflokki og mæla með málinu. Nei það er ekki þannig. Ráðherrann hefur talað fyrir því einn, sem undirstrikar auðvitað það að þetta er eitthvert einkaáhugamál hans.

Ég endurtek að lokum að ég vildi frekar sjá að við værum í þróun í þá átt að þar sem íbúaundirlagið gæfi tilefni til, eins og t.d. í Kópavogi, færu menn að nýta sér svigrúmið a.m.k. til að fjölga fulltrúum og bjóða nýja tíma í þessum efnum velkomna og fagna því ef grasrótarsamtök bjóða fram krafta sína í þessa samfélagsþjónustu. Ef hjólreiðavinir, aldraðir, sköllóttir, hverjir sem það eru, kjósa að bjóða fram sín baráttumál sé því tekið fagnandi. Það er lægri þröskuldur og við fáum breiðari og fjölbreyttari sveitarstjórnir eftir því sem þær eru fjölskipaðri að þessu leyti.

Eins og hv. þm. Svandís Svavarsdóttir orðaði það svo ágætlega: Þetta er risaeðla, dínósár. Þetta er eitthvert gamalt mein á sál Sjálfstæðisflokksins að standa í þessu skaki og ég held að það hafi ekkert upp á sig.