146. löggjafarþing — 60. fundur,  26. apr. 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[17:39]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það verður eiginlega að segjast eins og er að það var svolítið sérstakt að þetta stærsta mál Viðreisnar skyldi hefjast í myrkri í gærkvöldi. Maður hefði haldið að það væri vilji af hálfu ráðherrans til þess að ræða það í björtu. En gott og vel, það var niðurstaðan að byrja að ræða málið í gær.

Ég velti því fyrir mér þegar þetta kom fyrst til tals, og í ljósi allrar þeirrar umræðu sem hefur átt sér stað um málið löngu áður en það kom fram, hvað það þýddi, þessi umræða um að þetta væri lausn allra mála. Það er ekki svo með þetta frekar en margt annað en ég hef trú á því að þetta geti stutt við og geti verið skref fram á við. Ég vona svo sannarlega að svo verði en ég hef samt áhyggjur af því að fólk haldi að þetta nái utan um það sem það nær ekki utan um.

Hér er talað um að 1.800 fyrirtæki séu á þessu starfsmannafjöldabili en við erum auðvitað með tugi þúsunda fyrirtækja á landinu sem falla ekki undir það. Mjög víða, t.d. í hinum dreifðu byggðum, eru 10–15 manna fyrirtæki. Þótt ég ætli ekki að draga úr metnaði þeirra til að standa sig er mjög mikilvægt að hafa þetta uppi. Þótt starfsmannafjöldi sé töluverður hér á bak við er þetta ekki lausn allra mála.

Varðandi þær vottanir sem hafa verið til staðar er það meira að segja þannig að fyrirtæki geta fengið gullvottun þótt þau séu með 3,5% launamun, t.d. má nefna það sem PricewaterhouseCoopers hefur vottað, Pósturinn er til að mynda þar undir. Það er mikilvægt að hafa það alveg á hreinu að ekki er verið að útrýma neinum launamun.

Það sem ég vildi ræða er mjög margt. Ég verð að taka undir það með hv. samflokksmanni mínum að auðvitað hefði verið eðlilegt að þessi staða hefði fylgt. Það er upplýsandi, það er gagnsæi, sem sérstaklega Viðreisn hefur talað töluvert fyrir. Það hefði verið skynsamlegt að það hefði fylgt með frumvarpinu, þannig að fólk áttaði sig á því. Við vorum hér fram undir miðnætti í gær og ég hef aðeins gluggað í þennan staðal. Þetta er eitthvað sem maður les ekki í gegn nema sem skemmri skírn á því. Eftir að hafa gluggað í það finnst mér þetta vera einhvers konar rammi utan um ferlið sem á að heita jafnlaunavottun. Það er samt í höndum fyrirtækjanna að setja sér sinn staðal, búa sér til sinn ramma. Hér eru ákveðnar leiðbeiningar um það hvað hann gæti innihaldið. Maður gæti álitið sem svo að sambærileg fyrirtæki myndu nýta þetta hvert hjá öðru, ég veit þó ekki hvort þau gera það, til þess að vera ekki alltaf að vinna grunnvinnuna hjá hverjum og einum.

Mig langar að koma inn á eftirlitið og hverjir það eru sem eiga að sjá um það. Það var gagnrýnt í gær að Jafnréttisstofa fengi einn starfsmann til að takast á við þetta verkefni. Ég tel það ekki ganga upp. Ég hefði viljað sjá það fara til skattsins og tel að skattstjóri og embætti hans sé miklu betur í stakk búinn til að takast á við þetta með sínum tækjum og tólum, að auðveldara sé að styrkja það embætti til að fylgjast með þessu en að ætla Jafnréttisstofu að fylgja því eftir. Þótt við séum að tala um jafnlaunavottun er það sem er undirliggjandi, launaupplýsingar, til staðar hjá skattinum, hvort sem varðar fyrirtæki eða einstaklinga. Skatturinn fylgir þessu eftir sums staðar annars staðar. Google hefur t.d. lent í stórum vandræðum þar sem þessu hefur verið fylgt eftir af hálfu skattsins og það kom fram að þar er hreinlega illa komið fram við konur og mismununin mikil. Ég held að það séu fleiri. Þetta er t.d. í Bandaríkjunum og á fleiri stöðum, í Bretlandi. Þar eru reyndar lágmarkslaunin lagabundin og þar hefur skatturinn frumkvæðisskyldu til að fara yfir framtöl og tékka á því hvort farið er á svig við samninga. Þar er til að mynda eitt fyrirtæki, sem er meira að segja starfrækt á Íslandi, Sports Direct, í miklum vandræðum. Ég held að hægt sé að gera eftirlitsþáttinn betri með því að færa hann til skattyfirvalda.

Það hefur stundum verið talað um það í kringum neytendaverndina, í kringum veitingastaði o.fl., að setja þyrfti miða í hurðina til að sýna fram á að staðurinn stæðist ákveðið eftirlit. Það er t.d. svoleiðis í Edinborg og víðar í Bretlandi, þar þarf að hafa miða í hurðinni og bresk heilbrigðisyfirvöld birta árlega skýrslu um þá staði sem standa sig ekki. Það er eitt af því sem væri hægt að gera. Þetta þyrfti þá að birtast á heimasíðu fyrirtækja. Ég er búin að vera að lesa um Póstinn, N1, Deloitte o.fl. sem hafa verið að þróa sig áfram í jafnlaunastöðlum og vissulega taka fyrirtækin það fram á sinni síðu að þau standist þetta, en ég held að mjög gott sé að draga það fram víðar.

Eins og hefur verið rakið eru lögin um launajöfnuð orðin gömul, þau eru frá því 1961. Þau hafa ekki gengið eftir og þetta á að vera til að bæta það. Jafnréttislög hafa ítrekað verið samþykkt og sett en launajafnréttinu hefur ekki verið náð. Maður veltir fyrir sér: Ef það er ekki farið eftir núgildandi lögum, bætir þetta einhverju við? Vissulega eru lagðar til einhvers konar sektargreiðslur og það getur vel verið að það bíti. Þá ítreka ég enn og aftur að ég held að betra sé að skatturinn sé með þetta og hægt að taka þetta þar í gegn.

Lögð voru drög að þessu í jafnréttislögum frá 2008 í tengslum við kjarasamningana, eins og einhverjir muna væntanlega, og á kvennafrídaginn var undirritað samkomulag milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um að fara í þá vegferð að búa til staðalinn sem við erum með fyrir okkur — eða ég en ekki aðrir þingmenn af því að ég fékk hann lánaðan. Maður vonaðist auðvitað til þess í framhaldinu að þetta væru einhver tímamót og eitthvað sem atvinnurekendur kepptust við að taka til sín, að búa til launajafnrétti, því að það er ekki til staðar.

Ef ég skil þetta rétt finnst mér vera ákveðin skemmri skírn á þessu. Í 3. gr. kemur fram að hægt sé að fá einhvers konar staðfestingu án þess endilega að fá beina vottun. Það á að koma fram hvers vegna það er ekki, ef það gengur ekki í gegn. En ég held að miðað við viðbrögðin þurfum við að herja töluvert á atvinnurekendur til að fá þá til að taka þátt í þessu með ríkinu.

Við stöndum frammi fyrir því að þegar tekið hefur verið tillit til allra málefnalegra þátta sem eiga að skilja á milli starfsmanna, hvort sem það er vinnutíminn, menntun, reynsla, geta, þá er enn launabil sem er allt of hátt, á bilinu 5–10%. Þegar fyrirtæki eru spurð viðurkenna þau ekki að konum séu greidd lægri laun. Þótt það sé staðreynd segir enginn forstjóri upphátt: Já, ég greiði konum lægri laun af því að þær eru lélegri í að semja. En það er staðreynd, sem er rakin hér, að konur taka oft fyrsta tilboði á meðan karlar þrúkka um launin. Þess vegna hefur launaleyndin ekki verið afnumin, hún er til staðar enn þá. Af þeim sökum er náttúrlega upplýsingahalli innan fyrirtækja. Ég held að það gerist ekkert fyrr en þetta verður að raunveruleika. Kannski náum við því með þessum aðferðum, ég veit það ekki. Ég vona svo sannarlega að þetta hjálpi til.

Það er tekið fram að málefnalegar ástæður geti verið fyrir því að einhver fái hærri laun en annar, hvort sem það er á milli kynja eða fólks af sama kyni. En fyrirtæki og opinberar stofnanir eiga samkvæmt þessu að upplýsa um launamuninn sem er á milli kynjanna þegar búið er að taka tillit til málaefnalegra sjónarmiða. Þau eiga að greina frá því ef konur fá minna greitt fyrir það eitt að vera konur, en auðvitað leggur það enginn fram. Ef það er launamunur verða búnar til einhverjar ástæður fyrir honum.

Í dag voru fréttir um að fólkið á gólfinu hjá Isavia eða á Keflavíkurflugvelli, starfsmenn SFR, hefði fellt samning. Það hefur verið sagt af hálfu ríkisstjórnarinnar að ekki sé hægt að hækka laun í landinu almennt sem einhverju nemur því að þá fari allt á hliðina. En við hljótum samt að ætla að jafna launin upp á við, ég trúi ekki öðru en að við ætlum að gera það og ætlum fyrirtækjunum að gera það. En þá hefur komið fram hjá þeim að það sé ekki hægt og að allir verði að hafa sig hæga svo hér fari ekki allt af stað, verðbólgan og allt það. Mér finnst við þurfa að ræða þetta opinskátt því að það hlýtur að vera partur af jafnlaunaátakinu að hækka laun kvenna. Það hlýtur að vera stór hluti af því. Eins og hefur komið fram eru allar umönnunarstéttirnar meira og minna mannaðar af konum og þær eru því miður launasettar lægra alla jafna. Það er ekki algilt frekar en annað en alla jafna er það svo.

Mér finnst vanta inn í umræðuna hvort t.d. ráðherrann og ríkisstjórnin telji nú þegar niðurstaðan er að kynbundinn launamunur er kannski 7,6%, eins og segir hér, og óútskýrður launamunur 5,6% og síðar 5%, og svo vitum við að hann er mismikill á milli fyrirtækja, milli atvinnugreina o.s.frv., að þessum aðilum sé þetta í raun fært og hvort þeir telji hagkerfið þola það á næstu þremur árum eða hvað það er sem þessum staðli er ætlað að ná utan um.