146. löggjafarþing — 60. fundur,  26. apr. 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[18:18]
Horfa

Andri Þór Sturluson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að segja, og finnst það sjálfsagt, að ég er sammála frumforsendu frumvarps hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra; jöfn laun fyrir sömu vinnu. En — og það er alltaf svo leiðinlegt að heyra svona „en“, en ég get ekki myndað mér skoðun á frumvarpi þar sem ég hef ónógar upplýsingar. Ég hef ekki þennan ÍST 85 staðal þar sem fram koma þær kröfur sem fyrirtæki og stofnanir munu þurfa að uppfylla. Ég hef ekki hugmynd um hvað þetta frumvarp með sín góðu og gildu markmið mun kosta fyrirtæki. Hvað kostar jafnlaunavottun?

Áður en ég tek þátt í því að setja einhverjar kvaðir á fyrirtæki vil ég vita nákvæmlega hvað ég er að gera þeim. Hvað þurfa fyrirtækin að borga fyrir þessa vottun og hverjum munu þau borga fyrir þetta? Mun einhver verða ríkur af þessu? Ég neita algjörlega að taka þátt í að koma á einhverju kerfi, einhverri sjálfvirkri peningamaskínu svo einhver flokksgæðingur einhvers staðar geti grætt. Ég tek ekki þátt í því að gefa Finnum Ingólfssonum þessa lands meira fyrir ekki neitt.

Eins og áður hefur komið fram er nauðsynlegur hluti þessa frumvarps bundinn í einhverju plaggi sem ég hef ekki aðgang að. Það er eitt eintak af þessum staðli í umferð hérna á þinginu og það er bannað að ljósrita það. Ef ég vil upplýsingar þá þarf ég að sitja fyrir þeim eina þingmanni hérna inni sem náði eintakinu sem bókasafn þingsins á, hann gleymir því kannski á borðinu sínu þegar hann fer í mat eða eitthvað. (Gripið fram í.) Bent hefur verið á að óheimilt er að afrita staðalinn með neinum hætti og okkur er því eiginlega gert að vinna að því að setja fram höfundaréttarvarin lög. Það kemur ekki til greina.

Einhverjir hafa velt upp tölum um kostnað. Í Morgunblaðinu 10. apríl sl. var fróðleg grein þar sem talað er við varaformann Félags atvinnurekenda. Þar sagði hún skilmerkilega frá því að innleiðing jafnlaunastaðals í fyrirtæki hennar, með nokkra tugi starfsmanna, hafi kostað um 4 milljónir, samt varlega áætlað. Ef kostnaður við jafnlaunavottun hleypur á svona upphæðum, einhverjum milljónum, fyrir fyrirtæki með aðeins 25 starfsmenn, þá gæti það hæglega verið mörgum þeirra um megn. Það eru ekki öll fyrirtæki sem hafa slíkar upphæðir á lausu, jafnvel á þriggja ára fresti, en frumvarpið gerir ráð fyrir að vottunina þurfi svo að endurnýja.

Ég sé bara fyrir mér svipað rugl og í kringum rafrænu skilríkin, að fyrirtækjum landsins og stofnunum verði þröngvað í viðskipti við einhvern vottunaraðila sem við vitum ekkert hver verður. Þau fyrirtæki sem hafa passað upp á þessa hluti, hafa staðið sig vel og verið á undan sinni samtíð í að uppræta kynbundinn launamun, er síðan jafnvel hálfpartinn refsað engu að síður og þurfa að standa undir kostnaði við að passa eitthvað sem þau hafa alltaf haft á hreinu. Ef ferlið við að fara í gegnum jafnlaunavottun er flókið, langt og kostnaðarsamt, velti ég því fyrir mér hvort það væri ekki einfaldara og ódýrara að ríkið sæi bara um hana og tæki jafnvel þátt eða sæi alveg um kostnaðinn. Nú er ég svo sem bara að hugsa upphátt, en mér finnst sanngjarnast að þeir sem gerast brotlegir við lögin borgi kostnað þeirra sem er allt í lagi hjá.

Það er að lokum eitt atriði sem mér finnst ekki á hreinu varðandi það til hverra þetta frumvarp tekur. Alls staðar er talað um fyrirtæki og stofnanir. Mig langar að vita hvort félagasamtök þurfi ekki örugglega að fá jafnlaunavottun líka ef þau hafa þennan tiltekna fjölda starfsmanna? Ég átta mig ekki á því. Eru félagasamtök með í þessu? Mér finnst vanta nánari skilgreiningu á fyrirtækjum eins og talað er um hérna. Eru félagasamtök eins og íþróttahreyfingar fyrirtæki? Það er nú verulegur launamunur milli kynjanna innan íþróttanna. Ef jafnlaunavottun næði til efstu deilda íþróttahreyfinganna og gæti þannig stuðlað að því að atvinnumenn og -konur í íþróttum fengju sömu kjör, finnst mér þetta frumvarp mjög skemmtilegt. Ef félagasamtök eru inni í lögunum og að hreyfingar þyrftu að borga körlum og konum sem sparka eða henda eins bolta sama pening, þá erum við að tala saman. En ef þetta nær aðeins til fyrirtækja og stofnana og ekki félagasamtaka þá finnst mér lögin missa marks. Ég velti því líka fyrir mér hvort samtök eins og t.d. Samtök atvinnulífsins séu ekki örugglega líka inni. Mér finnst það mikilvæg spurning.

Frumvarp þetta nær til fyrirtækja og stofnana. Mig langar að vita hvort það nái ekki örugglega líka yfir samtök eins og Samtök atvinnulífsins, starfsfólk þess og undirsamtök sem þeim tilheyra. Þyrfti ekki SA með sitt fólk og hin sex aðildarsamtök undir sama þaki í húsi atvinnulífsins að gangast undir jafnlaunavottun? Kannski hæstv. félagsmálaráðherra gæti svarað mér því. En þetta þarf að vera á hreinu.