146. löggjafarþing — 60. fundur,  26. apr. 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[18:34]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágæta ræðu og ekki síst fyrir að fara yfir eigin reynslu. Það er athyglisvert að heyra ýmislegt sem hv. þingmaður kom inn á þar. Mig langaði kannski að fá að spyrja hv. þingmann aðeins út í atriði því tengt. Hv. þingmaður talaði hér um fyrrum vinnustað á leikskóla þar sem tekist hafði að fjölga körlum í starfi og halda jöfnum launum en samt hefðu, vegna þess hve launin voru lág, ef ég skildi rétt, starfsmenn ekki haldist við störf. Ég vil taka það fram til að taka af allan vafa, ég veit ekki hvort hv. þingmaður hlýddi á ræðu mína í gær, að ég styð málið.

Margir hafa velt því upp að ef litið sé á þetta um of sem eina svarið í þessum málum gæti þetta orðið til að viðhalda því mislaunakerfi sem er á milli stétta hér á landi. Hv. þingmaður talaði um leikskólann. Við erum með vinnumarkað sem er mjög kyngreindur. Hv. þingmaður þekkir það vel úr starfi sínu. Þegar við förum inn í vinnumarkaðinn eins og hann er núna, vegum og metum jöfn laun fyrir sömu vinnu í þessum kyngreinda vinnumarkaði eins og hann er, hefur hv. þingmaður áhyggjur af því að ef ekki verði gripið til enn frekari aðgerða þá gæti þetta orðið til að festa í sessi það ástand sem við búum við í dag sem því miður er ekki nógu gott þegar kemur að launum miðað við mismunandi störf.