146. löggjafarþing — 60. fundur,  26. apr. 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[18:37]
Horfa

Nichole Leigh Mosty (Bf) (andsvar):

Ég þakka fyrir andsvarið. Ég ætla að lesa aftur orð frú Vigdísar:

„Ég var lengi að átta mig almennilega á því hvernig þessi kosning mín lauk upp veröldinni fyrir íslenskum konum. Konur fá kosningarétt 1915. Það er eins og þær hafi ekki treyst sér til að taka þátt í stjórnmálum fyrr en það var komið fordæmi um að þær gætu haft áhrif og jafnvel unnið svo mikilvægar kosningar.“

Það er kannski áhætta að við festumst, en ég tel að með þessum fyrstu skrefum munum við kannski leiða til næstu skrefa þar sem konur þora að fara í stjórn, þora að fara í aðrar starfsgreinar, þori að fara úr kvennastétt og í smíði með miklu hærri launum, þori að hreyfa við þeim mismun sem er nú þegar til staðar. Að við skulum búa til kvennastétt, hvað er það? Við þurfum að hreyfa til einhvers staðar. Ég ætla ekkert að sverja að þessi leið sé leið til að gera það, en ég tel að þetta sé eitt skref sem við eigum að þora að stíga. Ég vænti þess að það gefi okkur það sama og það gaf okkur þegar frú Vigdís var kjörin forseti Íslands.