146. löggjafarþing — 60. fundur,  26. apr. 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[18:38]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég er alveg sammála því að stíga þetta skref og að það geti leitt til góðs. Það er einmitt það sem ég er að velta fyrir mér að við þurfum að vera tilbúin til að stíga fleiri skref; næsta skref og þarnæsta og enn fleiri, hvort það endar í heilu maraþonhlaupi, eða hvað sem til þarf, til að ná fullu jafnrétti.

Ég er sannfærður um að þetta snúist ekki eingöngu um að konur þori að gera eitthvað. Ég held að ansi margar konur búi einfaldlega við það að hafa ekki eins mikið val og karlar hafa á ólíkum sviðum, í ólíkum stéttum og á ólíkum stöðum og bæjum og borgum. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að það er mjög fáránleg hugmynd að búa við karlastéttir og kvennastéttir, en það er einhvern veginn rótgróið í okkur. Það sem verra er, það er rótgróið í okkur að meta hefðbundin karlastörf til hærri launa en hefðbundin kvennastörf. Verði stéttir af einhverjum ástæðum kynblandaðri þannig að konur komi inn í karlastéttirnar þá verður það oftar en ekki til þess að launin þar lækka í samanburði við önnur laun. Ég nefni kennarastéttina sem var karlastétt hér fyrir 100 árum.

Ég held að þetta sé rótgróið vandamál sem ráðast þurfi að á öllum sviðum. Ég er sammála hv. þingmanni um það. Þess vegna langaði mig að spyrja hv. þingmann, ég er alveg sammála því að þetta sé fínt skref: Munum við ekki taka höndum saman til að stíga enn frekari skref til að koma á fullkomnu jafnrétti óháð öllu?