146. löggjafarþing — 60. fundur,  26. apr. 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[19:09]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ráðherrann segir hafa jöfn laun verið bundin í lög áratugum saman en engu að síður er þörf á því að hnykkja á því með sérstökum aðgerðum eins og þessu frumvarpi um jafnlaunavottun er ætlað að gera. Stundum þarf nefnilega að hnykkja á hlutum sem þegar eru í lögum, eins og við í minni hlutanum bentum á þegar við vildum bæta slíkri klausu inn í frumvarp um Landsrétt hér fyrr í vetur; það hefði verið ágætt að fá stuðning ráðherrans við þá aðgerð sem ég set nú dálítið undir sama hatt og þessa hér.

Hæstv. ráðherra er sá ráðherra sem ber ábyrgð á starfsmannamálum ríkisins. Opinberi geirinn er líka sá hluti atvinnulífsins þar sem komur vinna frekar en karlar, þær vinna frekar láglaunastörf þar en úti á almenna markaðnum; heilbrigðiskerfið og menntakerfið heyra undir starfsmannamálahatt ráðherrans. Þess vegna langar mig að spyrja hvort, til viðbótar þeim tímamótum sem birtast í frumvarpi um jafnlaunavottun, einhver vinna sé í gangi innan ráðuneytisins til að styrkja kvennastéttirnar sem heyra undir ríkið. Stendur til að hækka láglaunakonur í þjónustu hins opinbera og gera það með sérstökum aðgerðum, ekki með prósentuhækkunum sem hækka líka þá sem hærri eru í launum? Er verið að vinna í því að hækka gólfið hjá hinu opinbera sem mun koma konum talsvert meira til góða en körlum?