146. löggjafarþing — 60. fundur,  26. apr. 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[19:13]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona svo sannarlega að ráðherrann hafi það í gegn að styrkja láglaunastéttir hjá hinu opinbera. Það skýtur hins vegar nokkuð skökku við að í 18 síðna umsögn Landspítala við ríkisfjármálaáætlun, sem nýlega kom í hús hér á Alþingi, er einmitt bent á að heilbrigðiskerfið verði skorið niður um 5,2 milljarða í raun, fastur rekstur þess, þegar búið er að taka nýjan Landspítala út úr jöfnunni, þegar búið er að taka aukningu vegna fjölgunar þjóðarinnar — þegar búið er að taka alls konar þætti sem rugla grunnmyndina út — þá stendur eftir að lækka eigi framlög til spítalanna um 5,2 milljarða á þessu fimm ára tímabili. Þetta er ekki bara mjög mikilvægt kerfi fyrir okkur landsmenn alla, heldur og stærsti vinnustaður kvenna hér á landi.

Ráðherra nefndi að launaleynd væri eitur í sínum beinum. Það er nú gott að heyra. En mig langar að spyrja hvort hann, eftir að hafa fært sig úr því að ritstýra Frjálsri verslun, tekjublaðinu þar, hafi skoðað það að grípa til aðgerða innan ráðuneytisins til að aflétta launaleynd, eins og til dæmis að horfa til Norðmanna sem hafa staðgreiðsluskrána allt árið aðgengilega á netinu aftur í tímann þannig að bókstaflega sé hægt að fletta hverjum sem er upp hvenær sem er með ýmiss konar varnöglum í þágu persónuverndar. Þetta myndi væntanlega gagnast, eins og ráðherrann segir, í baráttunni gegn kynbundnum launamun.