146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

arðgreiðslur í heilbrigðisþjónustu.

[13:32]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Á síðasta kjörtímabili var stigið mjög stórt skref í auknum einkarekstri í íslenska heilbrigðiskerfinu þegar þáverandi heilbrigðisráðherra, núverandi hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra, tók þá ákvörðun að fela einkaaðilum að reka nýjar heilsugæslustöðvar. Sú ákvörðun var tekin án allrar lýðræðislegrar umræðu hér á Alþingi og þrátt fyrir að meiri hluti Íslendinga vilji að heilbrigðiskerfið sé rekið af hinu opinbera. Hún var tekin þrátt fyrir að sýnt hafi verið fram á, m.a. í alþjóðlegum rannsóknum, að hið opinbera geti sinnt heilbrigðisþjónustu með hagkvæmari hætti en einkaaðilar.

Þáverandi hæstv. ráðherra áttaði sig hins vegar á því að ekki væri vilji til þess í samfélaginu að veikindi væru höfð að féþúfu. Þess vegna lýsti hann því yfir að þessar nýju heilsugæslustöðvar hefðu ekki heimild til að greiða eigendum sínum arð.

Hæstv. forsætisráðherra mætti hins vegar í viðtali á sunnudag og lýsti þeirri skoðun sinni að það væri fullkomlega eðlilegt að greiða arð út úr heilbrigðisþjónustu og annarri velferðarþjónustu. Því ekki? sagði hæstv. ráðherra, sem er auðvitað hans svar við risastórri pólitískri og siðferðislegri spurningu um hvort eðlilegt sé að einkaaðilar hagnist á sjúkdómum fólks. Mitt svar við því er algjörlega skýrt: Það er hvorki rétt né skynsamleg nýting á almannafé að skattfé eða sjúklingagjöldum sé varið til greiða fólki arð.

Mig langar hins vegar að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað hefur breyst umfram það að Sjálfstæðisflokkurinn fer ekki lengur með heilbrigðisráðuneytið? Hvað hefur breyst frá því að hæstv. fyrrverandi heilbrigðisráðherra lýsti því yfir að ekki ætti að greiða arð út úr nýjum heilsugæslustöðvum? Er það stefna þessarar ríkisstjórnar sem hæstv. forsætisráðherra talar fyrir með þessum hætti? Hefur sem sagt orðið stefnubreyting frá síðustu ríkisstjórn í því að það sé eðlilegt og jafnvel jákvætt að greiða arð út úr velferðar- og heilbrigðisþjónustu?