146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

stefna í vímuefnamálum.

[13:39]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Frú forseti. Þann 16. maí 2014 samþykkti Alþingi þingsályktun Pírata þess efnis að stefna í vímuefnamálum yrði endurskoðuð á grundvelli lausnamiðaðra og mannúðlegra úrræða á forsendum heilbrigðiskerfisins og félagslega kerfisins til aðstoðar og verndar neytendum og félagslegum réttindum neytenda, aðstandendum þeirra og samfélaginu í heild. Nú hefur starfshópur, sem skipaður var af fyrrverandi heilbrigðisráðherra, skilað skýrslu með niðurstöðum og tillögum að úrbótum.

Í skýrslunni kemur fram, með leyfi forseta:

„… að vandi þeirra sem háðir eru ólöglegum vímuefnum er heilbrigðisvandi, og hann er í senn mikill og bráður. Að sama skapi verður ekki horft fram hjá því að bannstefna sem slík er að ýmsu leyti skaðleg þar sem hún eykur á jaðarsetningu neytenda vímuefna og útskúfun þeirra frá samfélaginu. Slíkar aðstæður draga úr áhrifamætti úrræða sem ætluð eru til verndar heilsu neytenda, svo sem skaðaminnkunar og annarrar heilbrigðisþjónustu sem krefst óskoraðs trausts milli þjónustuaðila og skjólstæðings.“

Mér skilst að ráðherra hafi kynnt sér skýrsluna og því langar mig að spyrja eftirfarandi spurninga:

Hefur ráðherra í hyggju að hrinda í framkvæmd þeim 12 tillögum sem lagðar eru til í skýrslu fyrrverandi heilbrigðisráðherra um mótun stefnu til að draga úr skaðlegum afleiðingum og hliðarverkunum vímuefnaneyslu? Ef svo er: Hefur ráðherra einhverja áætlun um hvernig þeim verði komið í framkvæmd, í hvaða röð og innan hvaða tímaramma?