146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

stefna í vímuefnamálum.

[13:41]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Þetta er mjög mikilvæg fyrirspurn vegna þess að skýrslan, og sú vinna sem liggur að baki henni, var tímabær. Það eru mörg nýmæli í skýrslunni og ábendingunum sem okkur er ljúft og skylt að fylgja eftir. Til að svara beint fyrirspurn hv. þingmanns, um hvort ég hyggist hrinda í framkvæmd þeim 12 ábendingum sem eru í skýrslunni, þá er þetta í skoðun. Ég hef, eins og hv. þingmaður segir réttilega, kynnt mér efni skýrslunnar og það er í bígerð að vinna betur úr henni. En sú vinna er ekki komin svo langt að ég sé búinn að forgangsraða eða gera það endanlega upp við mig í hvaða röð við ætlum að skoða ábendingarnar. Það er mjög mikilvægt að í skýrslunni er mikið horft til skaðaminnkunar og skaðaminnkunarúrræða og það er hugmyndafræði sem við höfum tekið upp í auknum mæli í heilbrigðisþjónustu. Ég get sérstaklega nefnt verkefnið Frú Ragnheiður, sem er samvinnuverkefni Rauða krossins og heilbrigðisráðuneytisins, velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, en það hefur lyft grettistaki í því að auka heilbrigðisþjónustu til útigangsmanna og þeirra sem eru hvað mest utan kerfis. Skaðaminnkunarhugsunin, sem gegnsýrir skýrsluna og tillögurnar, er svo sannarlega ofarlega í mínum huga og ég vona að ég geti fljótlega gefið „rapport“ um það hvernig sú vinna fer af stað.