146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

stefna í vímuefnamálum.

[13:44]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Það er stórt spurt. Ég held að í stuttu máli sé hægt að segja að sá sem hér stendur sé ekki andvígur tillögum hópsins. Hins vegar vil ég að þær séu skoðaðar betur og dýpra og kannski sérstaklega þegar kemur að heilbrigðisþjónustunni, að velt sé við hverjum steini, skulum við segja, að við myndum okkur ekki afstöðu eða tökum ákvarðanir án þess að vera búin að fara dýpra ofan í sumar spurningarnar.

Í sambandi við refsistefnuna hef ég almennt og við í Bjartri framtíð verið höll undir skaðaminnkandi hugsun þegar kemur að refsingum og sagt að við eigum að reyna að þróa okkur frá refsistefnu til (Forseti hringir.) uppbyggingar fyrir fólk. Það á ekki aðeins við um fangelsisdóma heldur geta sektardómar og sakaskrár líka haft mjög neikvæð áhrif á einstaklinga.