146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

uppbygging löggæslu.

[13:46]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Lesa má úr stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að unnið skuli að uppbyggingu löggæslu og að sérstaklega skuli horft til aukins álags á landsvísu vegna fjölgunar ferðamanna. Ástandið er víða grafalvarlegt eins og dæmin sanna. Lögreglan um allt land hefur kallað eftir auknu fjármagni og bættu starfsumhverfi sem byggir m.a. á auknum mannafla. Nú þegar fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar hefur verið kynnt virðist ásetningurinn í stjórnarsáttmálanum með öllu gleymdur.

Fram kemur í umsögn ríkislögreglustjóra um þingsályktunartillögu fjármálaráðherra um fjármálaáætlun fyrir árið 2018–2022 sem fjallað er um í Morgunblaðinu í dag að í fyrsta lagi séu lögreglumenn nú 50 færri en árið 2007 auk þess sem samdráttur hafi orðið í öðrum rekstri. Í öðru lagi hafi álag aukist mikið undanfarin þrjú ár vegna gríðarlegrar fjölgunar ferðamanna sem og fjölgunar hælisleitenda og erlends vinnuafls. Í þriðja lagi séu lögreglumenn of fáir til þess að lögreglan geti sinnt þjónustu- og öryggishlutverki sínu með fullnægjandi hætti.

Þá er einnig bent á að áætlaður kostnaður við að ná sama fjölda lögreglumanna og var árið 2007 sé 1 milljarður og 3 milljarðar til að ná tölunni 680, en lögreglumenn mega helst ekki vera færri en það. Einnig kemur fram í Morgunblaðinu í dag að utanríkisráðuneytið meti það svo að ekki sé fjárhagslegt svigrúm til að ráðast í ýmis verkefni á sviði almanna- og réttaröryggis sem tilgreind eru í fjármálaáætlun. Því þurfi að forgangsraða í löggæslu, landhelgisgæslu og fleiri málum.

Hæstv. forseti. Mig langar til að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra með vísan í það sem fram kemur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar hvort hún telji að þau markmið sem þar eru fram sett muni nást.