146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

uppbygging löggæslu.

[13:48]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Það er von að hv. þingmaður spyrji, og kannski þingheimur allur, um lögregluna miðað við þann fréttaflutning sem verið hefur undanfarna daga af fjármálaáætlun sem kynnt hefur verið hér á Alþingi og lögð fram af hálfu ríkisstjórnarinnar og verið til umfjöllunar í nefndum. Ég verð að segja að það er ansi bratt af hálfu lögreglunnar að gefa sér að fjármálaáætlunin muni skila sér í þeim niðurskurði sem lýst var í ræðu hv. þingmanns. Ég vil árétta það sem ég veit að hv. þingmaður þekkir, en er kannski minna þekkt út fyrir þennan þingsal, að fjármálaáætlunin er eingöngu stefnumörkun til næstu fimm ára og lýtur að heildarrömmum á tilteknu sviði. Enn hefur ekki farið fram vinna sem lýtur að því hvernig fjármagni á einstökum sviðum verði ráðstafað. Sú vinna fer eðli máls samkvæmt fram við fjárlagavinnuna sem er að hefjast í ráðuneytunum þessa dagana og mun standa fram á haust og koma svo hingað til umræðu. Það er alls óvíst og algerlega úr lausu lofti gripið, finnst mér, að fullyrða að einstök lögregluembætti þurfi að draga úr starfsemi sinni eða fækka fólki með einhverjum hætti. Það er bara ekki tímabært á þessu stigi að ræða það.

Ég vil hins vegar árétta að lögreglan og framlög til löggæslumála hafa hækkað um 34% frá árinu 2014 til 2017. Það nemur um það bil 4,7 milljörðum sem hefur verið veitt í umframfjárveitingar til löggæslumála. Mér finnst ekki sanngjarnt, ef það er gert af hálfu lögreglunnar sjálfrar, að halda því fram að niðurskurður hafi verið í löggæslumálum undanfarin ár.