146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

tölvukerfi stjórnvalda.

[14:24]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á þessu mikilvæga máli og setja það á dagskrá. Mig langar að ræða það aðeins í stóra samhenginu. Ef þetta mál er jafn tilviljunarkennt og óljóst og í jafn miklum ólestri og þingmaður segir er þetta nú bara klassískt dæmi um hvað gerist þegar við uggum ekki að okkur og látum framtíðina koma aftan að okkur. Tölvubyltingin er tiltölulega ung og líklegt að stjórnvöld hafi tekið tæknina í notkun eftir því sem tilefni gafst til á hverjum tíma. Af því þurfum við að sjálfsögðu að læra. Ég styddi allar tillögur sem miðuðu að því að móta heildstæða stefnu um þessi mál og fylgja henni eftir. Þetta er ekki bara spurning um betri nýtingu fjármuna heldur líka öryggi íbúa, möguleika þeirra á að fylgjast með og taka þátt í mótun samfélagsins og ákvarðanatöku stjórnvalda. Hér er því um að ræða risastórt mál sem er mikilvægt fyrir þróun lýðræðis og kannski ekki óvænt að það skuli vera sett á dagskrá af Pírötum.

Ég held að við eigum að láta okkur þetta mál að kenningu verða því að okkar bíða enn stærri áskoranir. Handan við hornið bíður okkar gríðarleg samfélagsbreyting sem orsakast af framförum í vélum og hugbúnaði. Þar munu tæki ekki eingöngu leysa vöðvaafl af hólmi eins og við þekkjum heldur hugarafl líka. Við þurfum þess vegna að horfa til framtíðar og komast fyrir vaðið og vera viðbúin þessum breytingum. Þess vegna minni ég líka á þingsályktunartillögu Samfylkingar um viðbragð við nýrri tæknibyltingu þannig að við séum undirbúin og látum ekki, eins og ég sagði í upphafi, tæknina koma aftan að okkur. Takk fyrir að vekja athygli á þessu.