146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

tölvukerfi stjórnvalda.

[14:26]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ef lýsa ætti tölvukerfum á einfaldan hátt væri eðlilegast að segja: Hröð þróun og mikil endurnýjun. Tölvukerfi eru þreföld: Fyrst er það vélbúnaðurinn, tölvan sjálf, tengingarnar og jaðartækin. Án vélabúnaðarins eru hinir hlutar tölvukerfanna gagnslausir. Næst er það hugbúnaðurinn, forrititin sem reikna og teikna. Hugbúnaðurinn er samskiptamáti okkar við tölvurnar, brúin á milli mannamáls og vélamáls, leiðin til að koma hugmyndum okkar á stafrænt form. Síðasti hluti tölvukerfa er fólkið sem notar tölvurnar. Tölvur eru á sinn einfalda hátt bara tæki til að flýta fyrir og fækka villum í útreikningum en eru samt svo fjölhæfar að þær bjóða upp á heilan heim möguleika.

Ef lýsa ætti tölvukerfum stjórnvalda á einfaldan hátt væri ekki eðlilegast að segja: Hröð þróun og mikil endurnýjun. Vandamál tölvukerfa stjórnvalda eru líka þrískipt. Margt er hægt að bæta varðandi vélbúnaðinn, bæði hvað það varðar að velja hentugustu tækin og gera betur í innkaupum. Vissulega er vélbúnaður dýr en skilvirk notkun á nýjustu tækni getur skilað kostnaðinum margfalt til baka, sérstaklega þegar notkun tækjanna er pöruð við hugbúnaðarnotkun eða hugbúnaðarþróun, að valinn sé eða gerður hugbúnaður sem er sniðinn að þörfum þeirrar þjónustu sem stjórnvöld eiga að veita.

Tækifærin og tækin eru gríðarlega fjölbreytt. Til þess að nýta tækifærin sem best þurfa notendur kerfanna að fylgja þróuninni. Það er ekkert mál að kaupa bestu tækin og fá nýjasta og besta hugbúnaðinn en ef fólk kann ekki að nota þessi verkfæri gerist ekki neitt. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að hér sé stærsta vandamálið. Ekki er gert ráð fyrir að opinberar stofnanir hafi svigrúm til að þróa starfsemi sína ásamt starfsfólki á tæknilegan hátt með þeim verkfærum sem þó eru til; verkfæri eða verklag sem kosta jafnvel ekki neitt. Dæmi um gott verkefni er opið og tölvutækt, íslenskt mál, þar á meðal orðabók, beygingarlýsing og samheitaorðabók. Gagnasöfnin eru mun fleiri þar og nauðsynlegt er að tryggja opinn aðgang að þeim verkfærum til að tryggja stöðu íslensku í stafrænni framtíð.