146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

tölvukerfi stjórnvalda.

[14:35]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Smára McCarthy fyrir að hefja máls á þessu mjög svo þarfa umræðuefni. Sú sem hér stendur er ekki sérfræðingur í forritun og tæknimálum en starfaði þó í nokkur ár við að innleiða skjalastjórnun í stóru fyrirtæki áður en hún kom hingað inn á Alþingi. Ég verð að segja að það kom mér verulega á óvart þegar ég fór að kynna mér þessi mál, rafræna skjalastjórnun og tölvukerfi stofnana, hve víða potturinn var mölbrotinn. Það var eiginlega hræðilegt að komast að því þegar maður kom inn í þennan heim á sínum tíma. Nokkrir þingmenn hafa nefnt mikilvægi netöryggis og ég tek undir að mjög mikilvægt er að huga að því. Við erum ansi andvaralaus enn sem komið er í þeim efnum. Persónuverndarsjónarmið hafa líka komið fram í umræðunni í dag og skýjalausnir. Ég velti því fyrir mér og hefði áhuga á að heyra frá hv. þm. Smára McCarthy hversu öruggar skýjalausnirnar eru. Það væri mjög áhugavert að heyra meira um það.

Gagnsæi er af hinu góða og það að upplýsingar séu aðgengilegri fyrir almenning. Það er mjög mikilvægt og við ættum öll að stefna í þá átt. En þá nefni ég það og legg áherslu á að bætt skipulag og samræming kerfa er einnig mjög mikilvæg og tek þar undir með öðrum þingmönnum. Við erum langt á eftir nágrannaþjóðum í þeim, efnum, samkvæmt mínum upplýsingum, og mér finnst að við séum á sama stað gagnvart upplýsingamálum í dag og almenningur var kannski gagnvart fjármálum fyrir svona tíu árum síðan. Þarna þurfum við að taka okkur tak.

Ég tek undir að þörf er á allsherjarúttekt á þessum málum og stefnumótun og samræming algjörlega nauðsynleg.