146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

tölvukerfi stjórnvalda.

[14:38]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Sem ábyrgðarmaður í heilbrigðisþjónustu hef ég komið að margvíslegum þáttum sem lúta að rekstri gagnagrunna, upplýsingakerfa, vali og þróun, samþættingu og innkaupum, bæði á tölvum og hugbúnaði. Ég hef ekkert vit á þessu og er algjörlega ófróður um tæknimál en hlutskipti mitt hefur engu að síður verið þetta. Ég þekki allvel til innleiðingar og þróunar á tveimur stórum rafrænum kerfum, þ.e. sjúkraskrárkerfinu Sögu og fjárreiðu- og bókhaldskerfinu Orra, sem og hvernig tilraunum og ásetningi um að nýta sér opinn hugbúnað reiddi af hjá opinberum stofnunum.

Á tíunda áratugnum hófst þróun Sögu. Það var að frumkvæði einkaaðila sem samdi við ráðuneytið og greiddi talsverða peninga fyrir. Þegar fram í sótti varð þetta kerfi síðan að söluvöru á hugbúnaðarmarkaði og svo er enn í dag. Hið opinbera á ekki kerfið og hefur ekki tilkall til þess. Stofnanir greiða mánaðarlega gjald fyrir notkun á hverri einustu útstöð og reyna auðvitað að halda fjölda þeirri í lágmarki í sparnaðarskyni. Þetta er afleitt fyrirkomulag. Kerfið þykir ekki fullnægjandi en hefur þróast til mikilla bóta eftir að embætti landlæknis tók yfir eftirlit og umsjón.

Heilbrigðiskerfið kallar eftir nútímalegu kerfi sem svarar kröfum fagfólks um upplýsingagjöf og sveigjanleika. Önnur stór innleiðing var kaup hins opinbera á Oracle-kerfinu Orra, bókhalds-, fjárreiðu- og mannauðskerfi fyrir allar ríkisstofnanir, örsmáar sem þær stærstu. Vitaskuld þarf ríkið samræmt kerfi að þessu leyti en flestum ber saman um að þarna hafi verið skotið hressilega yfir markið, kerfið er svifaseint og snúið að ná út úr því upplýsingum. Stofnunum hefur ekki verið gert kleift að velja sér annan kost þrátt fyrir óskir.

Aðeins örfáar stofnanir hafa kastað af sér okinu, hlaupið út í frelsið og valið sér aðra kosti. Í því sambandi má nefna skrifstofur Alþingis sem nota kerfið aðeins í lágmarki.

Hvað varðar opinn hugbúnað er tómt mál að tala um það og er fullreynt. Ríkið vill ekki sjá neitt slíkt, að því er virðist, hvað sem öllum yfirlýsingum líður. Öll þau stóru kerfi sem notast er við í ríkisbúskapnum styðjast við Windows-stýrikerfi (Forseti hringir.) og notendur lenda á refilstigum, þurfa meira en meðalnotendaþekkingu til að nýta sér opinn hugbúnað í dag.