146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

tölvukerfi stjórnvalda.

[14:40]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ég þakka fyrir gríðarlega góða umræðu. Það er augljóslega margt sem fólk hefur áhuga á í þessu samhengi. Ég er sammála mörgum öðrum hv. þingmönnum sem hafa tekið til máls og hæstv. fjármálaráðherra. Ég er þó ósammála hæstv. fjármálaráðherra um skýjalausnir af fjórum höfuðástæðum: Öryggismálum, kostnaði, þjóðaröryggi hreinlega og svo meðfærileika gagna. Það er nefnilega þannig að nú býðst okkur á Alþingi, og sennilega fólki víðar í stjórnkerfi Íslands, að nota skýjalausnir sem eru vistaðar erlendis, jafnvel fólki sem hefur með þjóðaröryggi landsins að gera og viðskiptahagsmuni þess. Þegar við erum að tala um skýjalausnir erum við að tala um að geyma upplýsingarnar okkar á tölvu einhvers annars, á tölvu sem er ekki undir okkar stjórn og við höfum ekki nein ráð yfir. Þetta er atriði sem er óásættanlegt. Einnig tek ég undir það sem hv. þm. Guðjón S. Brjánsson sagði um kostnað við sjúkraskrárkerfið. Ef þetta kerfi hefði verið frjáls hugbúnaður frá upphafi hefði verið hægt að taka það og færa til annars þjónustuaðila eftir þörfum til að lágmarka kostnaðinn.

Það var minnst aðeins á netöryggissveitina hjá Póst- og fjarskiptastofnun, CERT-ÍS svokölluð, sem var mikil bót þegar henni var bætt við í fjarskiptalög. En það hefur gengið svolítið hægt að koma vinnunni af stað hjá þeim og síðast þegar ég gáði voru aðeins sjö tilkynningar um öryggisáhættur frá þeim. Þetta er atriði sem við ættum að skoða.

Frjáls hugbúnaður hefur gefist mjög vel, til dæmis í VMA, sem er stærsti vinnustaður landsbyggðarinnar. Frjáls hugbúnaður hefur verið í notkun þar í átta eða níu ár. Allt þetta bendir til þess að í raun sé víða pottur brotinn í kerfinu. Það eru erlendar fyrirmyndir sem við gætum leitað til, eins og 18F í Bandaríkjunum og GDS í Bretlandi. Núverandi sundurleysi í stjórnkerfum (Forseti hringir.) og tölvukerfum ríkisins er hreinlega engum til framdráttar. Þetta kostar of mikinn pening, er allt of mikil flækja og við getum einfaldað það með því að taka höndum saman og reyna að vinna að góðri stefnumótun í því.