146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

Matvælastofnun.

370. mál
[14:54]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra ágæta yfirferð um þetta mál og eins það að gefa okkur færi á að ræða þessa skýrslu í þingsal. Ég tek undir orð hæstv. ráðherra um að það sé mjög nauðsynlegt að gera. Áður en ég fer efnislega í þetta langar mig að minnast á tvennt. Annars vegar nokkur atriði sem hæstv. ráðherra kom inn á. Ég fagna því að fara eigi í úttekt á stöðunni, endurskoða og styrkja það kerfi sem við búum við. Ég hef pínulitla áhyggjur af orðalaginu „því takmarkaða fjármagni“ sem hæstv. ráðherra kom inn á varðandi það að styrkja annars vegar Matvælastofnun og hins vegar Hafra. Ég held að við séum löngu komin á það stig að þurfa að setja aukna fjármuni í þessi mál. Svo fagna ég því að það eigi að móta Matvælastofnun.

En hvað varðar samráð við sveitarfélögin um eftirlit langar mig að vekja sérstaka athygli á því að nú þegar liggur fyrir þinginu frumvarp um breytingar á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir þar sem sveitarfélögin eru alls ekki sátt við þær breytingar á eftirliti sem gera á og mörg hver tala um að ákvörðun um mengandi starfsemi sé beinlínis tekin frá sveitarfélögunum og færð til ríkisins. Ég hvet því til að það samstarf sem farið verður í verði á jafnréttisgrunni og verði ekki til að veikja sveitarfélögin og næreftirlitið.

Hitt atriðið sem mig langaði að tæpa á áður en ég fer í efnisatriði skýrslunnar er, og ég vildi óska að hér væru fleiri hæstv. ráðherrar, fjármálaráðherra sem hefur fjármunina um að sýsla og ekki síst mennta- og menningarmálaráðherra, að ef eitthvert dæmi sýnir okkur hversu miklu máli sjálfstæðir og öflugir fjölmiðlar skipta í samfélaginu er það málið um Brúnegg: Aðhald fjölmiðla er gífurlega mikilvægt. Við fylgdumst með því hvernig Ríkisútvarpið sinnti því hlutverki gríðarlega vel, hélt ráðamönnum og kerfinu við efnið, hvar sem það var. Gott ef fréttamaðurinn Tryggvi Aðalbjörnsson fékk ekki verðlaun fyrir umfjöllun sína. Við eigum að halda því á lofti sem vel er gert og taka til okkar hvort við getum ekki gert betur til að styðja við fjölmiðla til að sinna aðhaldshlutverkinu gagnvart okkur.

Hvað varðar efni skýrslunnar er hún um margt góð. Hún fer yfir málin. Hæstv. ráðherra fór ágætlega yfir ýmislegt sem þarf að taka til nánari skoðunar. Samstarf MAST, búnaðarsambanda, ráðuneytis. Hæstv. ráðherra fór ágætlega yfir þetta. Ég get bara tekið undir orð hennar í þeim efnum. Það er nauðsynlegt að skýra betur á milli stjórnsýsluþátta, hver beri ábyrgð á hverju, til þess að eftirfylgnin verði sem skýrust.

Mikið af efni skýrslunnar fjallar um ástandið eins og það var áður en lagaumhverfinu var breytt. Það kemur glögglega fram hér í skýrslunni hvernig þær breytingar hafa orðið til bóta, til að skýra ýmislegt. Heilt yfir held ég að þetta snúist líka um ákveðið viðhorf í pólitíkinni. Ég hef komið að málum sem tengjast einhvers konar eftirliti frá því að ég sat í umhverfis- og heilbrigðisnefnd Reykjavíkur fyrir margt löngu, ætli það sé ekki að skríða í 20 ár síðan. Viðhorfið hefur æ síðan þá og örugglega áður skotið upp kollinum þar sem er talað um eftirlitsiðnaðinn, atvinnulífið, stjórnmálamenn á hægri væng stjórnmálanna, hafa talað opinbert eftirlit niður. Eins og það sé einhvers konar eftirlitsiðnaður, eitthvert skrímsli sem er íþyngjandi á hinn alltumlykjandi frjálsa markað. Við sjáum dæmi þess ítrekað að eftirlit er nauðsynlegt. Við þurfum að efla eftirlit og taka margt til mikillar skoðunar. Eitt af því er fjármögnun MAST, þ.e. þær upphæðir sem atvinnulífið sjálft rukkar fyrir. Það er sjálfsagt að gera eins og lagt er til í skýrslunni. En hitt er líka að við sem stjórnvöld og þau sem halda um fjármuni ríkisins fari eftir því sjónarmiði að öflugt og gott eftirlit í þágu neytenda er nauðsynlegt. Okkur ber að efla það eins og við getum.

Virðulegi forseti. Nú er klukkan mín farin að ganga upp en ekki niður og þar sem ég hafna línulegum tíma hef ég af þessu litlar áhyggjur.

(Forseti (SJS): Forseti vill vekja athygli á því að búið var að semja um skiptingu ræðutíma fyrir fram milli talsmanna flokka.)

Þá er ég farinn að ganga á tíma …

(Forseti (SJS): Þetta gerist þegar hv. þingmaður gengur á ræðutíma félaga síns.)

Þá þakka ég fyrir mig.