146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

Matvælastofnun.

370. mál
[15:21]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum í dag skýrslu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um Matvælastofnun. Tilgangur skýrslunnar var að fara yfir starfsemi MAST og gera tillögur um úrbætur þar sem þess er talið þörf.

Þegar kemur að eftirliti með framleiðslu og meðhöndlun matvæla er augljóst að hagsmunir eru víðtækir og fjölbreyttir. Undir það fellur allt frá vernd lífríkis Íslands og velferð dýra almennt auk matvælaöryggis svo tryggja megi hnökralaus viðskipti og aðgang að erlendum mörkuðum með matvæli. Starfsemi MAST er því hluti af afar mikilvægu samevrópsku eftirlitsstarfi með framleiðslu og meðhöndlun matvæla sem er grundvöllur þess að Ísland geti rækt skyldur sínar og þar með verið þátttakandi í sameiginlegum markaði EES.

Þegar starfsemi MAST hófst í núverandi mynd störfuðu 75 hjá stofnuninni en nú eru um 90 fastir starfsmenn. Aðeins hluti þessarar fjölgunar starfa er vegna þeirra verkefna sem tengjast eftirlitshlutverki MAST. Rík áhersla er á að skoða nánar hvort í hendur hafi haldist fjölgun sumpart til viðamikilla verkefna og nauðsynleg aðföng til að sinna þeim sem skyldi.

Ýmislegt bendir þó í þá átt að stofnuninni sé ætlað um of, eins og fram hefur komið hér í dag, sem kemur niður á vinnubrögðum, starfsanda og samskiptum út á við. Í skýrslunni má m.a. lesa eftirfarandi úr svokallaðri stöðugreiningu, með leyfi forseta:

„MAST nær ekki að sinna öllum lögbundnum skyldum sínum og mikið álag og annir eru hjá stjórnendum og starfsmönnum. Töluvert er um langtímaveikindi vegna álags og í starfseminni sjást víða merki þreytu og jafnvel kulnunar.

Stofnunin starfar ekki nægilega vel sem ein samstillt heild. Ímynd bæði meðal eftirlitsþega og í samfélaginu í heild er ekki nægilega góð.“

Fyrst sú sem hér stendur á að heita bóndi, með öðru, get ég staðfest að þótt samskipti við MAST séu alla jafna ágæt hef ég heyrt á bændum að þeir virðast í vissum tilfellum vantreysta stofnuninni. Sú staða er ekki góð, hvorki fyrir bændur né MAST.

Við lestur skýrslunnar getur maður ekki varist þeirri hugsun að innra skipulag stofnunarinnar sé hugsanlega ekki eins og best verður á kosið. Það getur ekki verið markmið með stofnun á vegum ríkisins að hún nái ekki að sinna þeim verkefnum sem henni er ætlað með viðunandi hætti og sé ekki í góðu sambandi við þá sem hún á að hafa eftirlit með og þjóna.

Hæstv. forseti. Ég fagna orðum hæstv. ráðherra um ætlun hennar að koma af stað undirbúningi við matvælastefnu. En eins og staðan er nú liggur ekki fyrir heildstæð stefna stjórnvalda um matvælaeftirlit. Eftirlitið er á hendi tveggja aðila, MAST og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga. Ef haft er í huga að heilbrigðiseftirlitið skiptist í tíu sjálfstæða aðila með framkvæmdastjóra á hverju svæði má segja að í raun sinni ellefu aðilar eftirlitinu. Skýrsluhöfundar segja að athuganir þeirra hafi leitt í ljós að fyrirkomulagið sé ýmsum vandkvæðum bundið og valdi óhagræði og ósamræmi við framkvæmd eftirlits. Báðar stofnanirnar sinna líkum verkefnum þegar um matvælaeftirlit er að ræða með vel menntað starfsfólk sem hefur áþekka reynslu að baki. Eitthvað hefur borið á að skörun hafi orðið á milli MAST og heilbrigðiseftirlitsins og hefur komið til kasta ráðuneytisins að skera úr um hvor aðilinn beri ábyrgð á eftirlitinu. Þetta hefur óneitanlega valdið óánægju þeirra sem njóta þjónustunnar og hefur grafið undan trausti og tiltrú á kerfinu.

Úr þessu mætti hugsanlega bæta með því að setja heildstæða matvælastefnu eins og finna má í nágrannalöndunum og þá um leið að færa matvælaeftirlitið á eina hendi. Hagræðing og hagkvæmni hlýtur að vera sú krafa sem gerð verði til MAST og annarra stofnana sem sinna eftirliti. En úr þessari skýrslu má lesa að skortur á fjármagni og afli til framkvæmda hamli því að hún geti sinnt ætluðu hlutverki sínu. Ég velti því fyrir mér hvernig ríkisstjórnin ætlar að mæta þessu þegar gerð er 2% aðhaldskrafa.

Starfsemi MAST grundvallast á þekkingu starfsmanna hennar og þeirri reynslu sem þeir búa yfir. Fram kemur í skýrslunni að mannauðsmálum og samspili mannauðs og menningar sé of lítill gaumur gefinn en á sama tíma sé MAST mjög háð einstaklingum sem þar starfa, einkum sérfræðingum, og má illa við því að missa þá. Ég vil því leyfa mér að velta upp hvort ekki sé tímabært að ráða þangað mannauðsstjóra. Í raun kom það fram í máli hæstv. ráðherra að vinna verði lögð í að huga að mannauðsmálum því að hér erum við að tala um lykilstofnun sem skiptir okkur alveg gríðarlega miklu máli sem matvælaframleiðsluþjóð. Ég fagna því.