146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

Matvælastofnun.

370. mál
[15:26]
Horfa

Theodóra S. Þorsteinsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að fram skuli vera komin skýrsla um úttekt á starfsemi Matvælastofnunar. Niðurstaðan hryggir mig reyndar eins og fleiri sem hafa talað hér. Þarna sé ég ekki betur en að ákveðið stefnuleysi, skortur á samhæfingu og eftirliti mjög marga aðila hafi gert að verkum að okkur hefur ekki tekist að mynda góða umgjörð um eftirlit með frumframleiðslu og vinnslu dýraafurða né heldur eftirlit með smásölu, veitingahúsum og mötuneytum. Eins og staðan er skiptist eftirlit með þessum aðilum niður á 11 aðila. Þess utan er framtíðarsýn í málaflokknum afar óljós og verður því mjög erfitt að skilgreina umfang og árangur eftirlitsins.

Þær fara fyrir lítið yfirlýsingarnar um besta og hreinasta kjöt í heimi og bestu landbúnaðarafurðirnar ef við getum ekki sannreynt þær með neinu móti. Ef okkur tekst ekki að gera eftirlit með frumframleiðslu og vinnslu dýraafurða trúverðugt er til lítils að berja sér á brjóst um ágæti afurðanna. Ýmis mál sem varða umrætt eftirlit hafa líka komið illa við neytendur á undanförnum misserum og ber þar helst að nefna Brúneggjamálið, eins og komið hefur fram, sem þó leiddi til þeirrar úttektar sem er til umfjöllunar, sem er gott. Skyldur ýmissa aðila á sviði dýravelferðar hafa einnig komið ítrekað upp og löngu orðið tímabært að við þeim atriðum sé brugðist.

Það vekur einnig athygli mína að sérstaklega er rætt um að eftirlit með frumframleiðslu og vinnslu dýraafurða hjá Matvælastofnun heyri undir fagráðuneyti. Það er rætt sérstaklega að ýmislegt mæli með því að skilja eftirlit frá ráðuneytinu, enda sé það ekki endilega eðlilegt að eftirlitið fari fram innan fagráðuneytisins, og hvort því sé betur fyrir komið þar sem neytendavernd fer alla jafna fram. Það verður fróðlegt að fylgjast með umræðum um þetta mál og niðurstöðum þegar stefna í málaflokknum liggur fyrir.

Í skýrslunni kemur einnig fram að innan Matvælastofnunar sé mikilvægt að ráðast í endurskipulagningu á ýmsum verkferlum, samstarfi innan húss og utan, samskiptum og samráði við aðra hagsmunaaðila, svo eitthvað sé nefnt. Þá sé mannauðsmálum ábótavant. Það er mjög brýnt að mínu mati að huga sérstaklega að mannauðsmálum, enda byggir Matvælastofnun á mannauði og þekkingu hans. Súrt vinnuumhverfi með óskýrum boðleiðum og röngum áherslum án tengsla við hagsmunaaðila er ekki líklegt til árangurs.

Í skýrslunni kemur fram tillaga um að mótuð verði heildstæð stefna stjórnvalda í málaflokknum. Ég fagna því. Skýr stefna með mælanlegum markmiðum er fyrsta skrefið í átt að betri frammistöðu og bættri samkeppnisstöðu Íslands á sviði matvælaframleiðslu, dýravelferðar o.fl.

Ég vil hvetja til þess að draga að borðinu alla þá hagsmunaaðila sem málið varðar til að stefnumótun verði eins góð og frekast er unnt og taki örugglega til þeirra þátta sem máli skipta varðandi þau atriði sem ætlunin er að ná yfir. Þannig aukum við virði ýmissa landbúnaðarafurða, gerum betur þegar kemur að dýravelferð og tryggjum hámarksárangur.

Ég fagna áherslu hæstv. ráðherra þessa málaflokks í ræðunni á undan um stefnumótun og áform um að styðja þessa mikilvægu stofnun og bind vonir við að landið okkar verði ábyrgt og framsækið matvælaland í framtíðinni, eins og ég hef oft rætt. Við á Íslandi höfum öll tækifæri til þess, jafnvel betri og meiri tækifæri en önnur lönd.