146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

Matvælastofnun.

370. mál
[15:34]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Okkur Íslendingum þykir vænt um matvælaframleiðsluna okkar. Hugtakið „Ísland, best í heimi“ beintengir okkur mörg, ef ekki flest, við íslensk matvæli, framleidd við bestu aðstæður, frjáls, vel haldin dýr í okkar hreinu, dásamlegu náttúru, o.s.frv. Hér á Alþingi eiga sér líka reglulega stað sérstakar umræður um matvælaframleiðslu og matvælaöryggi og annað sem tengist þessari mikilvægu atvinnugrein sem er okkur svo hjartfólgin.

Búvörusamningurinn, sem var umdeildur af ákveðnum ástæðum, sýnir m.a. að við erum sem þjóð tilbúin að kosta miklu til við matvælaframleiðsluna okkar, enda eru tækifærin fjölmörg, bæði innan lands og utan.

Hvernig gerast þá atburðir eins og þeir sem áttu sér stað í undanfara þeirrar skýrslu sem er til umræðu, hið svokallaða Brúneggjamál? Ekki síður: Hvað er hægt að gera til að tryggja réttar, skynsamlegar og tímanlegar forvarnir og síðan viðbrögð af hálfu eftirlitsaðila og stjórnvalda? Hvernig er hægt að fullvissa neytendur um að þessi mál séu í lagi hjá okkur? Eða öllu heldur: Hvernig er hægt að standa við slík loforð? Við þurfum að spyrja okkur stórra spurninga í framhaldi af þessari skýrslu. Og við þurfum að hafa svör. Það er ekki tækt að Matvælastofnun nái ekki að sinna lögbundinni skyldu sinni vegna álags á stjórnendur og starfsmenn. Það er ekki í lagi að stefna stofnunarinnar og skipulag standi starfseminni fyrir þrifum, að ferlar séu ekki í lagi, né að stofnunin sé vanfjármögnuð þegar litið er til lögbundinna verkefna.

Það kemur jafnframt fram í skýrslunni að Matvælastofnun og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna starfi ekki nægilega vel saman og að fulltrúar tali í kross um hvaða lausnir þeir sjái fyrir sér. Þennan hnút þarf einfaldlega að leysa.

Eins og fram kemur í skýrslunni stefnir Danmörk að því að úthluta skoðunareftirliti til einkaaðila, m.a. til að ná að sinna verkefnunum. Við höfum þessa heimild einnig. Með leyfi forseta segir:

„Takmarkið í Danmörku er að úthluta um 25% skoðana fyrst um sinn. Þessi aðferð krefst stöðlunar og góðra skilgreininga og takmarkast við gagnaöflun. Slíkir aðilar hafa ekki heimild til að taka ákvarðanir á grundvelli skoðana. Einnig er það forgangskrafa að viðkomandi einkaaðili hafi faggildingu …“

Þá munu Danir hafa það þannig að hagsmunatengsl eru bönnuð, þ.e. skoðunaraðilar mega ekki eiga beinna hagsmuna að gæta til að tryggja faglegt sjálfstæði. Í stað þess að eftirlitsþeginn borgi eftirlitið borgar lögbært yfirvald verktakanum verkið, aftur til að tryggja hagsmunasjónarmið.

Það er alveg spurning, hæstv. ráðherra, hvort þetta sé ekki eitthvað sem er vert að skoða.

Síðan langar mig í lokin að vísa í atvinnugrein sem miklar væntingar eru bundnar við hér á landi og það er fiskeldið. Ég nefni þetta sérstaklega vegna þess að stjórnsýsla vegna fiskeldis liggur hjá Matvælastofnun. Þar höfum við sannarlega ekki efni á að misstíga okkur. (Forseti hringir.)

Herra forseti og hæstv. ráðherra. Þessi skýrsla er gott innlegg í málefni sem við þurfum alltaf að vera vakandi fyrir og tryggja eins vel og mögulegt er heilnæmi og gæði matvæla og heilbrigði og velferð dýra. Þar eigum við gríðarlegra og fjölbreyttra hagsmuna að gæta.