146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

Matvælastofnun.

370. mál
[15:42]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir byrja á að þakka kærlega fyrir það flotta framtak að láta gera þessa úttekt. Fyrsta merkið er að horfast í augu við vandann og átta sig á honum. Það er ekki alltaf nóg að búa bara til nýjar stofnanir, fela þeim verkefni og treysta svo á að þannig virki þetta. Hér erum við með mjög mikilvægan málaflokk undir eins og margoft hefur komið fram í umræðunni í dag og honum verðum við að sinna vel. Ég held að allir séu sammála um það, ekki síst neytendur í landinu, að vilja hafa öflugt matvæla- og dýraeftirlit, eftirlit með dýraheilbrigði og öðru slíku, og líka þeir sem hljóta eftirlitið. Þeir vilja hafa það til staðar. Þeir geta hins vegar haft skoðun á því hvernig það er framkvæmt og hvernig það virkar best. Ég held að mikil vinna sé fram undan við að vinna úr niðurstöðum þessarar skýrslu og í þessum málaflokki í heild sinni. Þó að skýrslan hafi verið sett af stað út af ákveðnu máli eru mörg atriði sem hún kemur inn á sem sýna að málið er mjög fjölþætt, að það séu mörg atriði svo ekki er hægt að gera neitt af því vel því að fókusinn er svo dreifður.

Við þurfum að hugsa það og þess vegna langar mig að tala almennt um þetta hjá hinu opinbera og biðla til þeirra sem fara í þessa vinnu að horfa vítt á málið, ekki einangra sig bara við þennan málaflokk eða málefni þessa ráðuneytis. Þá getur vel verið rétt að skipta hluta verkefnanna upp og styrkja aðrar eftirlitseiningar hins opinbera eða færa þær meira út til skoðunarstöðva eins og er vitnað til í skýrslunni að sé gert í Danmörku. Þegar stofnun nær ekki að sinna hlutverki sínu vel endar öll vinnan hjá ráðuneytinu. Deilan verður alltaf um það hver ber ábyrgðina.

Ég þekki það skýrt úr mínum fyrri störfum sem lögreglumaður að þegar við fengum vandamál til að leysa úr fór oftast mesta vinnan í að hjálpa þolandanum við að ákveða hvort það væri hið opinbera og þá hver hjá hinu opinbera sem bæri ábyrgð á að finna lausn á málinu. Þarna finnst mér það eiga líka við. Þeir sem lúta þessu eftirliti þurfa að fá eftirlit frá Matvælastofnun, frá heilbrigðiseftirlitinu, Vinnueftirlitinu, byggingaryfirvöldum og slökkviliðinu, fjórum aðilum. Hver og einn rukkar sitt. Við ættum að geta samnýtt þessa aðila, þótt það sé á milli ráðuneyta og annarra opinberra aðila, til að nýta fjármunina betur og þeir gætu verið öflugir í eftirliti eins og aðrir eru öflugir í stefnumörkun, ákvarðanatöku og eftirfylgni.

Þá vil ég minna á að við erum með sýslumenn víða um landið sem og heilbrigðiseftirlit og ýmsar stöðvar sem var búið að lofa að styrkja. Það er svona sem við þurfum að skoða þegar við förum í þetta allt saman. Þar ofan á eru framleiðendurnir líka oft með sitt eigið eftirlit. Hvernig getur þetta spilað með afurðastöðvum og öðru slíku? Við þurfum að ákveða hvernig við ætlum að forgangsraða þessum verkefnum og aðskilja svolítið matvælastefnuna, eftirlitsþættina og mismunandi þætti, hvar þeir séu best komnir þannig að hægt sé að hafa sem öflugastan fókus á þeim markmiðum sem við viljum ná og hvernig við nýtum þá fjármuni og þá starfskrafta sem eru í þessu sem best, þvert á allar girðingar á milli opinberra aðila og eftirlitsstofnana.