146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

þjónusta við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir.

438. mál
[16:04]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Frú forseti. Í 1. mgr. 11. gr. frumvarpsins er kveðið á um að einstaklingur skuli hafa rétt á notendastýrðri persónulegri aðstoð hafi hann mikla og viðvarandi þörf fyrir aðstoð og þjónustu. Í þessu frumvarpi og í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er fjallað um mikilvægi þess að lögfesta ákvæði um notendastýrða persónulega aðstoð til að tryggja að fatlað fólk sé við stjórnvölinn í eigin lífi, til þess að auka sjálfstæði þess og þar með getu til að lifa sjálfstæðu lífi.

Samkvæmt því frumvarpi sem nú liggur fyrir skal verkefnið fjármagnað að hluta með framlögum ríkissjóðs til sveitarfélaga en fjöldi samninga er takmarkaður í frumvarpinu. Til dæmis verða einungis 80 samningar gerðir árið 2018. Með þessu er verið að setja einhvers konar kvóta á réttinn til notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar. Þá ber að spyrja: Finnst hæstv. ráðherra í lagi að setja kvóta á hversu margir fatlaðir einstaklingar fá að lifa sjálfstæðu lífi?