146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

þjónusta við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir.

438. mál
[16:05]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni þetta andsvar. Ég kýs ekki að líta svo á að hér sé um kvóta að ræða heldur hefur eitt stærsta óvissumálið við lögbindingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar einmitt verið heildarfjöldi þeirra samninga sem um getur verið að ræða og sá kostnaður sem ríki og sveitarfélög gætu orðið fyrir vegna þessa og hefur það verið ein helsta ástæðan fyrir því að ekki var gengið fyrr frá lögbindingu þjónustunnar en raun ber vitni. Við völdum því að fara þessa leið, að í stað þess að leggja af stað í töluverðri óvissu um hvert heildarumfangið yrði yrði sett þak á hámarksfjölda samninga sem væri hækkandi ár frá ári, þannig að við værum að fullu búin að innleiða þetta úrræði á fjórum árum miðað við það mat eða áætlanir sem fyrir liggja um mögulegt umfang. Ég held að þarna sé miklu frekar með jákvæðum hætti verið að feta inn á þessa slóð, þótt vissulega hefði verið heppilegra að geta opnað alveg. En þarna þurfti að mæta óvissu um mögulegan kostnað.