146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

þjónusta við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir.

438. mál
[16:06]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Frú forseti. Það er talið að þörf sé á um 175 samningum eins og staðan er í dag. Með þessu frumvarpi verður það ekki að veruleika fyrr en 2022. Þá er svo sannarlega verið að setja kvóta á fatlað fólk, því að það er alveg ljóst að ekki munu allir fatlaðir einstaklingar hafa aðgang að þessum samningum.

Mig langaði líka að ræða að í 1. gr. frumvarpsins kemur fram að við framkvæmd laganna skuli framfylgt þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Það er vissulega jákvætt skref að tryggja að lögin verði ávallt skýr til samræmis við samninginn en án þess að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna er réttur almennings til að njóta þeirra mannréttinda sem samningurinn kveður á um ekki tryggður. Samningurinn var undirritaður hinn 30. mars 2007. Nú tíu árum síðar hefur hann ekki verið lögfestur í íslenskum rétti. Fjölmargir aðilar hafa mælt fyrir lögfestingu samningsins, þar á meðal Samband íslenskra sveitarfélaga. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvers vegna sú leið hefur ekki verið farin. Mun hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra beita sér fyrir lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks?