146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

þjónusta við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir.

438. mál
[16:09]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv ráðherra kynninguna og kýs að beina andsvari mínu að efni 40. gr. frumvarpsins sem við ræðum er varðar reglugerðarheimildir ráðherra. Í 40. gr. er að finna sjö málsgreinar sem hafa með reglugerðarheimildir ráðherra að gera þar sem fram kemur að ráðherra setji reglugerðir um nánari framkvæmd laga þessara, þar á meðal um eftirfylgni og dagsektir á hendur sveitarfélögum, skilyrði fyrir starfsleyfi til félagasamtaka, sjálfseignarstofnana og annarra einkaaðila sem ætla að veita þjónustu samkvæmt lögum þessum, sérstök húsnæðisúrræði, notendastýrða persónulega aðstoð, starfsemi og aðbúnað á skammtímadvalarstöðum, vistun barna utan heimilis, biðlistaforgangsröðun og úrræði á biðtíma. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort drög að einhverjum þessara reglugerða liggi fyrir, hvort til standi að klára þau fyrir gildistöku laganna og hvort Alþingi muni fá kynningu á þeim viðamiklu málasviðum sem reglugerðarheimildir ráðherra ná til. En aðalspurningin snýr að því (Forseti hringir.) hvort reglugerðirnar verði tilbúnar fyrir gildistöku laganna.