146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

þjónusta við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir.

438. mál
[16:20]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þetta sé eitthvað sem er mjög mikilvægt að ráðherrann svari alveg skýrt. Í greinargerðinni sjálfri kemur fram að Samband íslenskra sveitarfélaga gerir fyrirvara varðandi ákveðnar forsendur kostnaðarmatsins. Þeir benda á að þeir hafi gert kröfu um að hlutdeild ríkisins í NPA-samningi verði 30% en ekki 25%, sem ég kannast ágætlega við. Þeir gera líka fyrirvara við að gert sé ráð fyrir að það verði lækkun á öðrum útgjaldaliðum hjá sveitarfélögum upp á 15%. Þeir telja mjög hæpið að hagræðing skili sér að einhverju slíku marki á innleiðingartímabilinu og benda á þrýstinginn á verðið á viðmiðunarstundinni í NPA-þjónustunni. Þetta eru að vísu athugasemdir sem hafa líka komið fram almennt um sveitarfélögin og fjármálaáætlunina, að samráðið hafi verið mjög takmarkað. Það virðist vera að menn séu nánast að fabúlera um tölur þegar kemur að kostnaði sem fellur á sveitarfélögin. Ég ítreka að ég held að mjög mikilvægt sé, (Forseti hringir.) því að við erum öll sammála um að hér séu góðar tillögur undir, að tryggja að það sé fjármagn sem fylgi.