146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

þjónusta við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir.

438. mál
[16:21]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa athugasemd. Það ber auðvitað að horfa til þess að ríkisfjármálaáætlun er stefnuplagg ríkisstjórnar, horft til næstu fimm ára. Það kallar síðan á nánara samráð við sveitarfélög þegar kemur að lögbindingu þeirra útgjalda í tengslum við fjárlagavinnu hvers árs. Það er alveg rétt að í framsetningu þess stefnuplaggs hefur ekki farið fram nákvæmt samráð við alla hlutaðeigandi aðila, enda einfaldlega ekki tími til slíks samráðs á þeim stutta tíma sem fimm ára ríkisfjármálaáætlunin er sett fram á. En að sjálfsögðu verður slíkt samráð viðhaft í vinnunni fram á veginn og við undirbúning fyrir fjárlagavinnu haustsins. Við höfum móttekið athugasemdir sveitarfélaganna hvað varðar kostnað við þessa skilgreindu þjónustu. Það þarf að skoða betur til að ganga úr skugga um að við séum raunverulega að fjármagna (Forseti hringir.) þá samninga sem að er stefnt. En þar til nánari athugun á þeim kostnaði hefur farið fram geri ég ráð fyrir að þær forsendur sem við vinnum út frá séu réttar.