146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

þjónusta við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir.

438. mál
[16:47]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi ræðu minnar fá að fagna því að við séum að ræða þetta mál. Þetta er mjög mikilvægt mál sem hefur krafist mikils undirbúnings. Ég vil sérstaklega nota tækifærið hér og þakka fyrrverandi þingmanni okkar, Willum Þór Þórssyni, sem leiddi vinnu við gerð þessa máls og starfsmönnum ráðuneytisins og öllum þeim fjölda hagsmunaaðila og einstaklinga sem kom að gerð þessa frumvarps og síðan þess frumvarps sem ráðherra mun mæla fyrir á eftir. Það er mjög ánægjulegt að þetta sé að koma hingað inn í þingið.

Þetta er stórt mál. Það eru alvörubreytingar sem hér eru lagðar til. Það er ástæða þess að ég taldi rétt að fara í andsvar við hæstv. félagsmálaráðherra. Ég held að við séum öll sammála um mikilvægi þess að fara í þessar breytingar. En til þess að þær geti orðið að raunveruleika þarf að tryggja fjármagn. Það er verulegt áhyggjuefni þegar hæstv. ráðherra getur ekki svarað skýrar en hann gerði hér í andsvari hvort kostnaðarmatið sé raunhæft sem liggur að baki þessa frumvarps. Ég ítreka að á fundi fjárlaganefndar fylgdu Reykjavíkurborg og sambandið eftir sínum umsögnum þar sem menn bentu á að þeir teldu ekki næga fjármuni fara í þessi stóru og mikilvægu verkefni.

Þegar málaflokkurinn var færður yfir til sveitarfélaganna á sínum tíma, 2012, var talað um að það væru um 1.000 þjónustuþegar sem þyrftu á mestri þjónustu að halda. Þeim hefur fjölgað. Þegar farið er í gegnum endurmatsskýrsluna um yfirfærsluna eru þjónustuþegar sem fá hina ýmsu þjónustu einhvers staðar á bilinu 1.000–1.300. Miðað við þann fjölda samninga sem hér er talað um, á þessu tímabili fjármálaáætlunarinnar, erum við að tala um að það séu á bilinu 13–17% sem munu til dæmis fá notendastýrða persónulega aðstoð miðað við 172 samninga. Ég vil ítreka að ég á óskaplega erfitt með að skilja hvernig það getur gengið upp að kostnaður á þessu tímabili eigi að lækka við samningana þegar verið er að gera kröfu um að hækka það gjald sem er borgað fyrir hverja klukkustund í notendastýrðri persónulegri aðstoð og að sveitarfélög hafa jafnframt sótt það að aukið framlag komi frá ríkinu. Þetta hlýtur að vera eitt af lykilatriðunum sem velferðarnefnd þarf að fara yfir í þessu máli. Megingagnrýnin sem hefur komið frá sveitarfélögunum eftir yfirfærsluna er sú að þau vilji sinna þessu vel en þau hafi því miður ekki fengið næga fjármuni. Þau þurfi að fá meiri pening til að geta sinnt verkefnunum vel. Við þurfum að fara vel yfir það í meðferð þingsins og líka þegar kemur að hinu málinu sem ég hef nefnt hér, fjármálaáætluninni sjálfri.

Ég vil nota tækifærið og benda á að í frumvarpinu eru ákvæði um notendasamninga. Það mun vonandi að einhverju leyti koma til móts við þessa prósentutölu sem mér finnst vera ansi lág. Þar er þá áfram hugsunin um réttinn til sjálfstæðs lífs en gert ráð fyrir að sveitarfélag geti haldið utan um bókhaldið, reksturinn, á þeim samningum; samt sem áður er alltaf unnið á grundvelli þess að notandinn hafi allt um það að segja hverjir sinna honum. Þessir samningar hafa líka verið kallaðir beingreiðslusamningar en tekin hefur verið ákvörðun um að tala um þá í lögunum sem notendasamninga. Það má segja að NPA sé útfærsla á notendasamningum. Það er mjög mikilvægt að halda því til haga.

Aðrir liðir sem verið er að skerpa á hér snúa að húsnæðisúrræðum fyrir fatlað fólk sem gert er ráð fyrir að sveitarfélögin eigi að tryggja. Á sínum tíma, það tók tíma fyrir mig að átta mig á því hvernig staðið var að yfirfærslunni því þetta var ekki einfalt mál, fóru um áttatíu fasteignir frá ríkinu yfir til sveitarfélaganna. Um var að ræða íbúðarhúsnæði, endurhæfingarstöðvar, þjónustu- og atvinnuhúsnæði. Gengið var frá mjög hagstæðri fjármögnun á þessu húsnæði sem sveitarfélögin eru síðan að borga inn í svokallaðan fasteignasjóð jöfnunarsjóðs. Síðan hefur óskaplega lítið verið gert við þessa peninga. Hundruð milljóna koma á hverju einasta ári inn í jöfnunarsjóðinn sem er þá endurgreiðsla fyrir þessa lánveitingu, þessar fasteignir. Það er þess vegna mjög mikilvægt, og það kom líka fram í umsögnum Reykjavíkurborgar og sambandsins, að bæta úr húsnæðismálum fatlaðs fólks. Í endurmatsskýrslunni á sínum tíma kom fram að gert væri ráð fyrir að stofnkostnaður fram til ársins 2020, vegna endurnýjunar búseturýma og vegna viðhalds, gæti numið allt að því 8 milljörðum kr. Þetta er Reykjavíkurborg að benda á hjá sér, þ.e. að væntanlega þyrfti í kringum 2 milljarða til að útrýma biðlistum þar. Þar fyrir utan þarf að leggja niður herbergjasambýli og það er eitt af því sem við erum öll sammála um að vinna að.

Ég sá fyrir mér, þegar ég var í velferðarráðuneytinu, að stofnframlögin í nýja almenna íbúðakerfinu gætu komið af almenna hlutanum varðandi húsnæði en það væri þá fasteignasjóður jöfnunarsjóðs sem tryggði fjárveitingu í þjónusturýmum, dýrari hlutann af húsnæði sem endurspeglar sérþarfir hins fatlaða einstaklings. Það varð reyndin að ég og innanríkisráðherra vorum sammála um þá túlkun. Í fyrri úthlutun komu 90 milljónir til sveitarfélaganna til að tryggja þetta viðbótarrými og viðbótarbúnað, má segja, sem þarf til að hinum fatlaða einstaklingi nýtist húsnæðið sem best. Þetta var eitt af því sem ég ræddi við sveitarfélögin á fundi fjárlaganefndar. Greinilegt var að menn voru ekki alveg sammála um hvernig ætti að nýta þessa peninga. Sumir sjá fyrir sér að þetta ætti að fara í endurnýjun á skólahúsnæði, aðrir að þetta ætti að fara í endurhæfingarstöðvar, en ég teldi langskynsamlegast að skiptingin á þessum fjármunum innan jöfnunarsjóðs endurspeglaði verðmæti þeirra fasteigna sem farið var yfir. Að sjálfsögðu að einhverju leyti líka forgangsröðun hjá sveitarfélögunum í húsnæðismálum.

Eitt af því sem ég vil benda á snýr að akstursþjónustu. Ég mælti ekki fyrir löngu fyrir frumvarpi til að tryggja að fatlað fólk, sem er 67 ára og eldra, ætti rétt á akstursþjónustu alveg eins og þeir sem eru fatlaðir undir 67 ára. Þar var töluverð umræða um kostnaðarþáttinn við akstursþjónustuna. Þess vegna kemur mér það eilítið á óvart að sjá nánast enga umfjöllun hér varðandi þann þátt, þótt hins vegar sé skerpt á því að aldraður einstaklingur sem býr við fötlun og er kominn inn á hjúkrunarheimili eigi þá ekki rétt á þeirri þjónustu. Ég held að þá sé mikilvægt að fara mjög vel yfir það hjá velferðarnefnd. Ég er ekki viss um að það sé það sem hagsmunasamtök hafi kallað eftir. Og við þurfum líka að átta okkur betur á því hvað það þýði fyrir sveitarfélögin varðandi aukinn kostnað.

Eitt af því sem sveitarfélögin hafa kallað eftir er að fá aukinn stuðning. Mér þótti mjög miður að ná ekki að klára það við yfirfærsluna sem snýr að þjónustu við börn með fjölþættan vanda. Hæstv. ráðherra er að einhverju leyti að koma, að ég tel, til móts við þennan hóp í fjölskyldukafla fjármálaáætlunarinnar, þar sem ætlunin er að setja á stofn nýtt úrræði hér á höfuðborgarsvæðinu. Það hefur samt ekki verið áherslan eða niðurstaða starfshóps á vegum ráðuneytisins. Það er talið mjög mikilvægt að börn með fjölþættan vanda, alveg eins og hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir fór hér í gegnum og var að spyrjast fyrir um, séu í sínu fjölskylduumhverfi. Þótt þau þurfi mjög mikinn stuðning sé það ekki þannig að við tökum börnin frá fjölskyldunum. Það er eitthvað sem við erum fyrir löngu komin fram hjá og við ætlum ekki að fara þangað aftur.

Enn á ný komum við að því sem sveitarfélögin hafa verið að benda á, þ.e. að það þurfi að tryggja fjármagn í þjónustu við börn með fjölþættan vanda. Það þarf að viðurkenna það. Það er hluti af því sem þingið verður einfaldlega að fara vel yfir, hvort við teljum að þær lagabreytingar sem hér er verið að leggja til nái utan um þetta og svo enn á ný hvort fjármálaáætlunin nái utan um þetta. Þetta verður stórt og mikið verkefni. En ef við ætlum að vera bjartsýn getum við vonast til þess að þingið nái að fara yfir þetta nú í maí en það er samt spurning hvort það muni ganga eftir.

Ég myndi hins vegar telja að það væri einstaklega brýnt að við náum að tryggja þessa þjónustu í gegnum fjármálaáætlunina. Það er alveg ljóst að við munum afgreiða hana og í framhaldinu klára þetta frumvarp. Það er gott að þetta mál sé komið fram, það er einkar mikilvægt. Við þurfum hins vegar að tryggja fjármunina þannig að þetta séu ekki bara orðin tóm.