146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

þjónusta við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir.

438. mál
[17:05]
Horfa

Jóna Sólveig Elínardóttir (V):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir. Mig langar að byrja á að segja að ég fagna því að við séum að ræða þetta frumvarp í dag, enda felur það í sér gríðarlega mikilvæg skref í átt að lögbindingu samnings Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðra. En það eru nokkur atriði sem mig langar að draga sérstaklega fram.

Í frumvarpinu eru stór skref stigin í átt að því að tryggja rétt fólks til sjálfstæðs lífs og þátttöku í samfélaginu án aðgreiningar. Vil ég þá sérstaklega nefna það sem fram kemur í 8. gr. um stoðþjónustu sem miðar að því að mæta þörfum fatlaðra einstaklinga fyrir þjónustu sem felst í því að treysta möguleika þeirra til sjálfstæðs heimilishalds og samfélagslegrar þjónustu, þörfum fatlaðra einstaklinga til hæfingar, endurhæfingar, menntunar og atvinnu, m.a. á grundvelli viðeigandi aðlögunar svo þeir geti séð sér farborða og tekið virkan þátt í samfélaginu til jafns við aðra, þörfum fatlaðra einstaklinga fyrir sérhæfða ráðgjöf, félagslegan stuðning og félagslegt samneyti, þar með talið ástundun tómstunda og menningarlífs, og að lokum þörfum fatlaðra barna fyrir umönnun og þjálfun ásamt nauðsynlegri þjónustu við fjölskyldu þeirra svo þær geti búið börnum sínum örugg og þroskavænleg uppeldisskilyrði.

Þá er í 9. gr. einnig verið að styrkja rétt fólks til að velja sér búsetustað, velja hvar og með hverjum það vill búa til jafns við aðra. Í þeirri sömu grein er jafnframt gert óheimilt að binda þjónustu við fatlað fólk því skilyrði að það búi í tilteknu búsetuformi. Þetta er gríðarlega mikilvægt og mikil réttarbót.

Þá er stórt skref stigið í 11. gr. frumvarpsins í átt að réttarbótum fyrir fatlaða með lögfestingu réttinda til notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar, NPA. Þar segir skýrt að aðstoðin skuli, með leyfi forseta:

„… vera skipulögð á forsendum notandans og undir verkstýringu og verkstjórn hans.“

Þetta er gríðarlega mikilvægt atriði.

Þá þykir mér einnig ástæða til að vekja athygli á þeirri þjónustubót sem verið er að lögfesta í tengslum við fötluð börn og fjölskyldur þeirra. Í 13. gr. er mjög skýrt kveðið á um skyldur stjórnvalda til að veita fötluðum börnum nauðsynlega þjónustu svo að þau fái notið fullra mannréttinda til jafns við önnur börn. Hér er verið að festa í lög sjálfsögð réttindi fatlaðra barna til sjálfstæðs lífs og lögbundið að þau geti tekið þátt í samfélaginu án aðgreiningar.

Þetta felur m.a. í sér að fötluð börn skuli sannarlega hafa aðgang að og njóta menntunar. Þau eiga einnig að hafa raunverulegan aðgang að þjálfun, starfsundirbúningi og tómstundum.

Þá er virkilega jákvætt að í 16. gr. frumvarpsins er lögfestur réttur fatlaðra barna og ungmenna til frístundaþjónustu eftir að skóladegi lýkur, líka á skólafrídögum og þar sem það á við áður en dagleg kennsla hefst.

Hér er lögð áhersla á að þjónusta skuli vera einstaklingsmiðuð og að hún sé þannig úr garði gerð að hún henti hverjum og einum sem allra best. Vert er að nefna að fjármagn til þessa hefur verið tryggt. Því ber sérstaklega að fagna.

Þá langar mig að lokum að benda á V. kafla, um atvinnumál. Þar er verið að styrkja svo um munar atvinnuúrræði fyrir fatlaða. Þetta skiptir mjög miklu máli, enda felst í því mikil lífskjarabót að eiga raunverulega tækifæri á að stunda atvinnu í þeim tilfellum þegar fatlaðir geta og vilja.

Mig langar að enda á að biðja hæstv. ráðherra að fara aðeins betur yfir það í seinni ræðu sinni og gera grein fyrir þeim úrbótum sem boðaðar eru í þessum málaflokki, þ.e. atvinnumálum fatlaðra.