146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

þjónusta við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir.

438. mál
[17:09]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp til laga um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir. Ég tek undir með þeim hv. þingmönnum sem fagnað hafa fram komnu frumvarpi sem er gleðiefni og er gott að langflestu leyti, en það eru auðvitað veikleikar í frumvarpinu sem ég vona að hv. velferðarnefnd muni fjalla um og styrkja frumvarpið og þetta verði að góðum lögum fyrr en síðar.

Þegar þetta frumvarp verður að lögum tekur það við af lögum um málefni fatlaðra frá 1992 sem tóku nokkrum breytingum árið 2011 þegar málefni fatlaðra fluttust yfir til sveitarfélaga.

Í frumvarpi þessu er boðuð ný nálgun í velferðarþjónustu og mannréttindamálum í samræmi við þá þróun sem við höfum upplifað á seinni árum, samanber breytingar á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar árið 1995, lögfestingu mannréttindasáttmála Evrópu 1994 og undirritun samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2007 og fullgildingu hans árið 2016.

Lögin skerpa á ýmsum þáttum sem voru óljósir í eldri lögum að mínu áliti og miðast í auknum mæli við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður viðkomandi, óskir og önnur atriði eins og kyn, kynferði, aldur, þjóðernisuppruna og trúarbrögð. Frumvarpið mun geta falið í sér mikla réttarbót fyrir fatlað fólk, réttindin gerð skýrari, auk þess sem í frumvarpinu er fjallað um ný þjónustuform sem bæta munu lífsgæði fatlaðs fólks. Það verkefni sem hefur verið tilraunaverkefni frá því um mitt ár 2012, notendastýrð persónuleg aðstoð, verður lögfest með því að við samþykkjum þetta frumvarp.

Áhersla er nú lögð á að meta einstaklingsbundnar þjónustuþarfir, að sambærileg tilvik fái sambærilega meðferð og ósambærileg tilvik ólíka úrlausn. Allt miðar að því að þetta sé persónuleg þjónusta og að þjónustan verði veitt á forsendum þess sem þjónustunnar nýtur, á forsendum notandans. Ýmsum gráum svæðum er eytt og atriði skýrð í ljósi þeirrar reynslu sem hefur fengist með gömlu lögunum. Áréttað er að fatlaðir eigi rétt á almennri þjónustu eins og aðrir þegnar. Ef t.d. stuðningsþörf er 10–15 klst. á viku gilda hin almennu lög um félagsþjónustu en þessi lög taka við ef þjónustan verður umfangsmeiri.

Óljós svæði hafa myndast milli laga um málefni fatlaðs fólks og laga um málefni aldraðra. Þetta er nýjung í lögunum og af hinu góða. Í samræmi við ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks getur fatlaður einstaklingur sem orðinn er 67 ára notið réttinda samkvæmt báðum þessum lögum. En reynslan var sú að menn lentu í vanda þegar einstaklingur varð 67 ára og það komu upp tilvik þess í sveitarfélögum að menn tókust eitthvað á um þetta atriði, hvaða lögum ætti að beita.

Í V. kafla er fjallað um framtíðarskipan atvinnumála fatlaðs fólks sem grundvallast á viljayfirlýsingu ríkis og sveitarfélaga frá 2015 þar sem rauði þráðurinn er að farið skuli með atvinnumál fatlaðra eins og um atvinnumál almennt. Í því felst talsverð áskorun. Ég tek undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa fjallað um að það er einstaklingum með fötlun gríðarlega dýrmætt að hafa greiðan aðgang eftir atvikum að vinnumarkaðnum. Vinnumarkaðnum er það mjög dýrmætt að hafa fólk með fjölbreyttan bakgrunn í þjónustu sinni. Ég þekki það sjálfur frá mínum vinnustöðum að þeir einstaklingar sem búa við skerta starfsorku eru vinnustaðnum dýrmætir einstaklingar með svo mörgum hætti.

Mikilvægur þáttur frumvarpsins er sá sem lýtur að þjónustu við börn með samþættar geð- og þroskaraskanir. Með þessu er lagastoð skotið undir vanda sem hefur verið mörgu sveitarfélögum þungur í skauti. Þetta er ekki einfalt mál. Margir tengjast börnum með þennan samþætta vanda og ekki alltaf ljóst hver ber aðalábyrgðina á þjónustu við þau.

Með þessu frumvarpi, sem vonandi verður að lögum, er þetta atriði vel skilgreint. Við erum ekki að tala um stóran hóp barna í þessu tilviki, en þetta er talsvert flókið og kostnaðarsamt.

Í 11. gr. frumvarpsins er fjallað um notendastýrða persónulega aðstoð, NPA, sem margir telja afar veigamikinn hluta þessa nýja frumvarps og ferskasta hluta laganna. Notendastýrð persónuleg aðstoð snýst um að einstaklingar sem þurfi aðstoð í daglegu lífi stjórni því sjálfir hvers konar stoðþjónustu þeir njóti, hvar og hvernig hún sé veitt og hver veiti þeim þá þjónustu. Markmiðið sé að fatlað fólk geti notið sjálfstæðis til jafns við alla aðra borgara þessa lands og ætti ekki að þurfa á árinu 2017 að vera tiltökumál. Það er hins vegar val þeirra sem um er að ræða, hvort þeir vilja nýta sér þessa aðferðafræði eða hugmyndafræði, notendastýrða persónulega aðstoð, þeir geta valið hvort þeir kjósa það form eða ekki.

Það sem er mjög mikilvægt í framkvæmdinni og við munum eflaust fjalla um í hv. velferðarnefnd er að það sé innbyggður sveigjanleiki í þetta kerfi, NPA. Það eru svo margbreytilegar þarfir hjá einstaklingum að við verðum að búa okkur undir það og NPA hentar ekki nándar nærri öllum. Menn horfa auðvitað til þess, í ljósi reynslu nágrannaþjóðanna, að innleiðing NPA sé fyrsta skrefið í þá átt að þetta verði aðalform þjónustu við fatlað fólk í framtíðinni. Þegar við tölum um fatlað fólk erum við að tala um fólk með skerta starfsorku, hreyfigetu, en við getum eins verið að horfa til þeirra sem eru eldri og með skerta orku af þeim ástæðum, þótt þeir séu ekki endilega skilgreindir sem fatlaðir. Við trúum því að þjónustan muni þróast í þá veru til handa þeim sem þurfa aðstoð á annað borð.

Grundvallarþáttur í innleiðingu þessa kerfis er sá að þetta er samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga, enn um sinn a.m.k., þótt málaflokkurinn sé lögum samkvæmt vistaður hjá sveitarfélögum. Gert er ráð fyrir að hlutdeild ríkisins í NPA-samningunum verði 25% metins kostnaðar, en um það er ekki eining. Sveitarfélögin telja að þetta að þetta sé of lágt hlutfall og þurfi að vera a.m.k. 30%. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur fjallað um þetta efni og það er eftir því sem ég best veit ekki komin fullnaðarlending í þetta, en um það verða menn að ná sátt.

Ég tek undir áhyggjur um það að lögin séu vanfjármögnuð, að þegar þau eru komin til fullra framkvæmda árið 2022 verði samningarnir alls 172 og innleiðingin sé dálítið hæg og erfitt verði að bíða til 2022 eftir að þessu verði hrint í framkvæmd að fullu. Sennilega eru 172 samningar of fáir samningar.

Þegar þessu verður lokið árið 2022 er gert ráð fyrir að því verði komið í varanlegt fyrirkomulag, þ.e. kostnaði og verkaskiptingu vegna NPA til framtíðar, og umsamin fjárhæð þessa samkomulags verði þá flutt frá ríki til sveitarfélaga með fjárlögum 2023. Þá verða menn að hafa náð lendingu í umfangið og verðmiðann.

Virðulegur forseti. Ég tel að þetta sé í heildina jákvætt frumvarp sem eins og fyrr segir leiði til aukinna réttarbóta fyrir fatlaða einstaklinga. Þetta er mannréttindamál og mun ásamt með frumvarpi því sem liggur fyrir um breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga fá gagnlega umfjöllun velferðarnefndar Alþingis og vonandi verða að lögum hið fyrsta.