146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

þjónusta við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir.

438. mál
[17:25]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég hef sömuleiðis ekki áhuga á eða þörf fyrir að lengja þessa umræðu mikið enda er hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir búin að fara ágætlega yfir þetta mál af okkar hálfu, þingmanna Vinstri grænna. Það eru nokkur atriði sem ég vil þó nota tækifærið og staldra við. Í fyrsta lagi fagna ég frumvarpinu sem og því frumvarpi sem hér er næst á dagskrá, þau eru ánægjuleg hvor tveggja. Með þessu erum við að taka skref í áttina að því að búa með nútímalegum hætti um þessa þjónustu og að standa betur undir því að innleiða nú loksins samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Ég kom mikið að málefnum við yfirfærsluna á sínum tíma frá ríki til sveitarfélaga á árinu 2011 og er sannfærður um að það var rétt og er stoltur af mínum þætti í því, þó að það væri vissulega á erfiðum tímum sem þetta vandasama verkefni var fært frá ríki til sveitarfélaga. En ég er sannfærður um að þar er því vel komið eins og annarri nærþjónustu og nota enn einu sinni tækifærið til að láta það sjónarmið mitt í ljós að færa málefni aldraðra sömuleiðis og samþætta alla nærþjónustuna á vegum sveitarfélaganna.

Ríkið þarf að standa myndarlega að því að sínu leyti og ber áfram ábyrgð á málaflokknum, að sjálfsögðu, þó að sveitarfélögin annist um framkvæmdina og hafi til þess tekjur. Það leysir að sjálfsögðu ekki löggjafann og ríkisvaldið, framkvæmdarvaldið, undan sinni ábyrgð á málaflokki af þessu tagi. Eðli málsins samkvæmt er eiginlega óhugsandi að sjá svona lagað fyrir sér öðruvísi en sem samstarfsverkefni. Það var mjög í tísku hér á einum tíma að tala um hina hreinu verkaskiptingu sem ná ætti fram milli ríkis og sveitarfélaga. Það mættu aldrei vera nein grá svæði af því að menn höfðu þá tilfinningu að það þýddi einhverja erfiðleika og rifrildi um það hvernig ætti að skipta kostnaði. Í mínum huga er það algerlega úrelt nálgun. Við eigum að líta á rekstur velferðarsamfélagsins á Íslandi sem eitt sameiginlegt, heildstætt verkefni og ekki vera of upptekin af landamærum í þeim efnum heldur að leysa þá úr því með góðri samvinnu og samstarfi þar sem bæði stjórnsýslustigin koma að málum.

Kostnaðarsamskiptin hér eru eðli málsins samkvæmt þannig að þau verður að leysa í mjög góðu samstarfi. Það verður áfram þannig að ríkið tekur þátt í tilgreindum og ýmsum kostnaði með sveitarfélögunum. Það gerir það annars vegar með beinum framlögum eða tiltekinni hlutfallskostnaðarþátttöku í afmörkuðum verkefnum, en síðan eru auðvitað til staðar þeir tekjustofnar sem færðir voru til sveitarfélaganna til að standa straum af þessum útgjöldum og renna að stórum hluta gegnum jöfnunarsjóð.

Á sínum tíma var reiknað út að til þess að mæta útgjöldum eins og þau voru á botni kreppunnar, þ.e. framreiknuð útgjöld miðað við heildarkostnað ríkisins af málaflokknum, það gæti hafa verið á árinu 2009 frekar en 2010 sem notað var til grundvallar, þyrfti um 1,34% af útsvarsstofninum, tekjuskattsstofninum, eins og hann stóð þá. En öllum var ljóst að hann var þá í mikilli lægð og myndi hressast með batnandi efnahag. Niðurstaðan varð því sú að festa þetta í byrjun við 1,2% og síðan var bætt lítillega við það á grundvelli nýs samkomulags. Það gekk líka ágætlega eftir. Það tók ekki nema þrjú ár þangað til útsvarsstofninn gaf af sér meira framreiknað að raungildi en rekstur málaflokksins hafði kostað árið 2010.

En það að þarf að mæta nýjum kröfum og nýjum óskum, það er það sem þetta mál snýst að hluta til um, að gera betur í málaflokknum. Þar mun ríkið koma að málum með sveitarfélögum varðandi þá sem hafa viðvarandi og miklar stuðnings- og þjónustuþarfir, þar á meðal þá sem fara þá leið að fá þjónustu í gegnum notendastýrða persónulega aðstoð þar sem það á við. Sama má segja um frístundaþjónustu við fatlaða og húsnæðisúrræði þar sem þau eru sérstaklega íþyngjandi eða fyrirferðarmikil, að ríkið taki áfram þátt í kostnaði þar að hálfu, að mér skilst.

Þá er ég kominn að því sem ég vildi nefna sérstaklega. Það stendur svo á að í fagnefndum þingsins erum við með í höndunum fjármálaáætlun til fimm ára, fyrir árin 2018–2022. Velferðarnefnd er í þessari viku að ljúka vinnu sinni við umsögn til fjárlaganefndar, í raun um það bil sem fáum þessi frumvörp frá hæstv. ráðherra. Nefndinni mun þar af leiðandi gefast mjög skammur tími til að bera saman markmið frumvarpsins og það sem þar segir um kostnað og mat á kostnaði og svo aftur það sem hægt er að lesa út úr fjármálaáætluninni og mætti vera skýrara. Ég ætla nú ekki að fara hér langt inn í það, herra forseti, að fá útrás fyrir óánægju mína með framsetningu fjármálaáætlunarinnar sem ég hef glímt við í tíu daga. Ég þykist nú vera alveg sæmilega læs á pappíra af þessu tagi, en hef átt í hinum mesti erfiðleikum með að berja mig í gegnum það hvað hlutirnir þýða á köflum og hvað raunverulega er á ferðinni, t.d. í formi fjárveitinga til margra mikilvægra velferðarmála. Því veldur óskýr framsetning þar sem öllu er grautað saman, húsbyggingum, tækjakaupum, viðhaldi, sérverkefnum, tilfærslum og rekstri og þótti nú ekki gott bókhald hér í eina tíð.

Það má að hluta til segja um þennan lið að það er ekki alveg ljóst hvert svigrúmið er raunverulega miðað við aukningu í málaflokknum til að mæta áformunum í þessu frumvarpi og væntanlega að einhverju litlu leyti einnig í frumvarpi um breytingu á lögum um félagslega aðstoð, þó að það sé að vísu gert mjög lítið úr því í kostnaðamati, þar sem talað er um verulegar framfarir í málaflokknum, aukið eftirlit og styrkta framkvæmd og betri málsmeðferð varðandi deiluefni, að það eigi að kosta nokkurn skapaðan hlut. Enda lendir það þá að vísu að mestu á sveitarfélögunum.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Getur hann fullvissað okkur um og farið aðeins betur yfir eftirfarandi: Er svigrúm í fjármálaáætluninni til þess að mæta að fullu þeirri fjölgun samninga um notendastýrða persónulega aðstoð sem fjallað er um í ákvæði til bráðabirgða I, þ.e. það fari úr 80 samningum í 172 á áætlunartímanum, því að ákvæðið fellur að sömu árum og gildistími fjármálaáætlunarinnar er? Ég átta mig á því að menn þurfa að gefa sér forsendur að vissu leyti til að setja upp slíka kostnaðaráætlun. Það er gert með því að áætla ákveðið miðgildi á hvern samning eða meðaltalskostnað á samning. Ég skil alveg að það er ekki hægt að fá þarna út einhverja nákvæma tölu upp á krónur og aura. En það er þá a.m.k. mjög mikilvægt að við vitum að fyrir þessu sé séð í fjármálaáætluninni.

Af hverju þarf að spyrja að þessu, herra forseti? Það er af því að í fjármálaáætlun, eins og hún er framsett, og í kaflanum um útgjöld til félagsmála er hvergi að sjá nokkurn skapaðan hlut sem hægt er að nota til að glöggva sig á því hvað ætlað er t.d. í þennan afmarkaða málaflokk. Það eru engar töflur, engin sundurliðun, ekki neitt, falið inn í heildartöflum þar sem maður hefur ekki grænan grun um hvað á að fara í hvað nema af því takmarkaða magni sem leiðsögn er að finna í greinargerðinni sjálfri eða gögn sem þegar hafa komið frá ráðuneytinu þar um. Það er að vísu rétt að taka það fram að við höfum beðið um sundurliðun og undirgögn frá ráðuneytinu en ekki er komin niðurstaða í það mál enn þá.

Þetta er t.d. mjög gott dæmi um það þar sem fylgja hefði átt sérstakur kafli eða greinargerð um fjármálaáætlunina. Reyndar gagnrýni ég alveg sérstaklega að nú þegar loksins er verið að innleiða samninginn um réttindi fatlaðs fólks sé tækifærið ekki notað til þess að gera þá t.d. á einum stað grein fyrir því hvar aðgerðir stjórnvalda liggja á því sviði til að takast á við innleiðinguna. Hvar er þær að finna? Hvar er fjárveitingar að finna til að gera það sem gera þarf á hinum mismunandi sviðum?

En það er engu að síður fagnaðarefni að hér sé gert ráð fyrir úrbótum á þessu sviði. Ég gleðst að sjálfsögðu yfir því og fagna því að auka umtalsvert þátttöku ríkisins í því að gerður verði vaxandi fjöldi samninga á næstu árum um notendastýrða persónulega aðstoð. Vonandi verður hægt að mæta þörfunum með þessari áætlun.

Í öðru lagi fagna ég því að lagt verði, að vísu ekki nema lítillega meira en þó aðeins meira í stuðning við frístundaþjónustu við fatlaða nemendur. Síðan eru fjárveitingarnar auðvitað ákaflega mikilvægar sem hér eru og auka á talsvert frá og með árinu 2019 í búsetuþjónustu fyrir börn með fjölþættan vanda. Það mætti auðvitað ganga lengra í þeim efnum og spyrja: Þurfum við ekki að horfast í augu við að útvíkka þá aðstoð meira, þ.e. hægt sé að aðstoða jafnvel þótt ekki sé nema um þessi afar fáu og sérstaklega dýru úrræði að ræða, heldur t.d. ef foreldrar fatlaðra barna þurfa að ráðast í nokkuð kostnaðarsamar breytingar á heimili sínu til að gera búsetuna mögulega? Loks er þarna fjallað um atvinnumál fatlaðs fólks og er það vel.

Þetta kallar á talsverðar viðbótarfjárveitingar og það er afar mikilvægt að því sé skilmerkilega til haga haldið í ríkisfjármálaáætluninni. Ef hæstv. ráðherra gæti komið hér upp og sagt: Þessi gögn gengu frá ráðuneyti mínu til fjármálaráðuneytisins og voru tekin fyrirvaralaust inn í fjármálaáætlunina, þá er það vel. Þá vitum við hvað er eftir í annað undir málaflokknum. Það er nefnilega þannig sem menn þurfa að nálgast þetta. Þá er nú ekki víst að aukningin sé til annarra hluta sé beysin, býður mér í grun.

Ég vildi gjarnan að ráðherra færi aðeins betur yfir þessa kostnaðarþætti í ræðu sinni á eftir sem hann fer væntanlega í við lok umræðunnar. Ég veit að þá bar á góma hér í andsvörum, en ráðherra hefur nú ágætan tíma í ræðu sinni númer tvö til þess að fara vel yfir þetta mál.

Það mun spara okkur í velferðarnefnd vinnu og létta af okkur áhyggjum ef ráðherra getur gefið alveg skýr og fyrirvaralaus svör í þessum efnum núna.