146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

þjónusta við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir.

438. mál
[17:38]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir mjög góða umræðu um þetta mikilvæga mál. Í þessu frumvarpi felst grundvallarbreyting á nálgun okkar á málefnum fatlaðs fólks. Þetta er grundvallarstef um réttinn til sjálfstæðs lífs án aðgreiningar, sem á að vera okkur leiðarljósið fram á veginn. Ég lít svo á að hér séum við vissulega að stíga mjög stórt skref en einungis það fyrsta í þeim efnum. Við þurfum að halda áfram vinnunni. Þarna eru margar áskoranir fram undan. Það verður að horfast í augu við, eins og talað er um, varðandi notendastýrða persónulega aðstoð að þetta eru kostnaðarsöm úrræði, en þetta eru þættir sem við sem samfélag eigum að taka utan um og sýna metnað í þótt þeir séu dýrir. Mannréttindin kosta stundum og þarna er um sjálfsögð mannréttindi að ræða sem við eigum að leggja allan okkar metnað í.

Mér finnst líka við hæfi að þakka forvera mínum í starfi sem leiddi vinnuna við endurskoðun á þessari löggjöf og fylgdi þeirri vinnu eftir lengstan spölinn. Í minn hlut kemur að ljúka vinnunni og leggja fyrir þingið. Full ástæða er til að þakka fyrir vel unnið starf og ekki síður vel unnin störf allra þeirra hagsmunaaðila og starfsmanna ráðuneytisins sem að þessu hafa komið.

Hér hefur verið rætt um ýmis mál sem snerta kostnað við þetta frumvarp og ekki síst varðandi NPA og þau úrræði sem þar eru, sem er rétt að skerpa aðeins á. Það er alveg klárt, og hefur ítrekað verið spurt út í það hér, að gert er ráð fyrir kostnaði að fullu við þessa 172 samninga í fimm ára ríkisfjármálaáætlun ásamt öðrum þeim kostnaðarauka sem frumvarp þetta er talið fela í sér, sem snýr fyrst og fremst utan NPA að frístundaþjónustu við börn. Gert er ráð fyrir hvoru tveggja í fimm ára áætluninni. Það hafa verið vangaveltur og spurningar í ræðum um hverju það sæti að kostnaður á hvern samning falli á tímanum. Þar er því helst til að svara að gert er ráð fyrir að þyngstu samningarnir hafi komið til fyrst í ferlinu, þeir samningar sem nú þegar eru í gildi, og tímum að baki hvers samnings fari heldur fækkandi að meðaltali þegar á líður. Það skýrir kostnaðarþróunina.

Hins vegar ber að hafa í huga að frumvarpið felur í sér bráðabirgðaákvæði um fjölda samninga. Það er skylda okkar þegar fram í sækir að tryggja fjármagn þeirra samninga til þess að mæta ákvæði laganna, verði þetta frumvarpi að lögum, sem þar er að finna. Við erum vissulega með áætlaðar stærðir að baki en það er fjöldi samninganna sem gildir. Við það loforð þurfum við að standa.

Að sama skapi er fjármagn tryggt varðandi atvinnumál fatlaðs fólks og aukna áherslu þar, sér í lagi aukið hlutverk Vinnumálastofnunar til að sinna betri ráðgjöf og fjölga úrræðum fatlaðra í þeim efnum. Þetta held ég að sé alveg gríðarleg mikilvægt mál, eitthvað sem við eigum að vinna að gera enn betur í. Ég held raunar að samþætta þurfti miklu betur innan ráðuneytisins þegar kemur að t.d. kaupum á stoðtækjum til þess að gera fötluðum einstaklingum kleift að sækja og sinna vinnu. Það er gríðarlega mikilvægt mál þegar kemur að réttinum til sjálfstæðs lífs án aðgreiningar að geta stundað vinnu eins og kostur er. Um mikilvæga framför er að ræða.

Það var spurt út í þróunina annars staðar Norðurlöndum hvað varðar notendastýrða persónulega aðstoð og hvort það mætti skilja það sem svo að önnur lönd væru að hverfa frá þessu úrræði. Svarið við því er nei, ekki svo mér sé kunnugt um, en t.d. í Svíþjóð hafa stjórnvöld gripið til þess að þrengja viðmiðin aðeins að nýju. Þar hafa verið hvað flestir notendur að úrræðinu en það var jafnvel talið vera of opið eða víðfemt og var því gripið til endurskoðunar á því. Það er ein af ástæðunum fyrir því að hér er ákveðið að feta leiðina inn í þetta úrræði með þeim hætti sem er gert, til þess að hægt sé að glöggva sig betur á hver raunveruleg eftirspurn reynist vera eftir úrræðinu. Þar er líka ósvarað ýmsum spurningum, hvar mörkin liggja á milli, áherslurnar t.d. á notendastýrða aðstoð, þ.e. að notandinn sé fullfær um að stýra þeirri aðstoð sjálfur, hvar mörkin liggja þar. Hvar liggja þá mörk þegar kemur að öldruðum, þegar kemur að einstaklingum sem glíma við þroskaskerðingar o.s.frv.? Eins mikilvægt og það er að lögbinda úrræðið er líka mjög mikilvægt að við fetum okkur inn í úrræðið þannig að við vöndum vel til og æðum ekki fram úr okkur í innleiðingunni.

Ég held að ég hafi að mestu leyti ef ekki öllu svarað spurningum um kostnaðinn í fimm ára áætluninni. Þar á þennan kostnað allan að vera að finna.

Ég tek undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að í fyrsta lagi sé þetta dæmigert verkefni NPA þar sem engin leið sé að aðgreina að fullu milli ríkis og sveitarfélaga. Þarna tekur ríkið undir með mjög kostnaðarsömu úrræði. Það er fullkomlega eðlilegt að svo sé. Sveitarfélögin gera kröfur til þess að ríkissjóður greiði 30% af kostnaði. Nú er miðað við 25%, þegar lagt var stað í þetta verkefni var gengið út frá 20%, þannig að við fetum einhvern meðalveg. Annar staðar á Norðurlöndum hefur gjarnan verið horft til þess að sveitarfélögin kosti sem samsvarar um 20 klukkustunda þjónustu á sólarhring, ef ég man rétt, og ríkið það sem upp á vantar í sólarhringsþjónustu. Allt eru þetta þættir sem við þurfum að hafa náið samráð við sveitarfélögin um og finna réttan takt í. Ég bíð þess hins vegar enn að sveitarfélögin telji þjónustu sína fullfjármagnaða af hálfu hins opinbera eða ríkisins. Það er eilífðarviðfangsefni okkar að tryggja fjármögnun þeirrar þjónustu sem sveitarfélögin eiga að sinna samkvæmt lögum. Sjálfsagt lýkur því verkefni aldrei.

Ég held að ég hafi tæpt á því helsta sem hefur verið rætt í 1. umr. Enn og aftur vil ég þakka fyrir afskaplega góða umræðu. Ég vona svo sannarlega að okkur auðnist að ljúka málinu á þessu vori. Ég held að full ástæða sé til, ekki síst þegar horft er til NPA, að í þetta sinnið verði ekki hefðbundin óvissa í málinu þegar líða tekur að áramótum og það sé nánast á síðustu starfsdögum þingsins verið að tryggja fjármagn og festa í sessi samninga næsta árs. Ég vona að að þessu sinni takist okkur að ljúka því með góðum fyrirvara og ekki síður að ljúka þeirri miklu réttarbót sem hér er á ferðinni fyrir fatlað fólk.

Ég hlakka til að fylgja málinu eftir, bæði við nefnd og 2. umr.