146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

439. mál
[17:57]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi fyrri fyrirspurn þá held ég að horfa þurfi til þess almenna markmiðs sem er í raun og veru að kveðið sé á um sértæka þjónustu fyrir fatlaða einstaklinga með mjög miklar stuðningsþarfir í því frumvarpi til laga sem við ræddum hér fyrr í dag, en hér sé kveðið á um hina almennu þjónustu sem einstaklingur skuli njóta af hálfu sveitarfélaganna. Það hlýtur þar af leiðandi, hvort heldur sem horft er til öldrunarheimila eða hjúkrunarheimila, að þurfa að horfa til sömu viðmiða, sömu grundvallaratriða, í því samhengi.

Varðandi akstursþjónustuna þá er stutta svarið við því: Nei, ekki er gert ráð fyrir neinni eðlisbreytingu á þeirri þjónustu sem í dag er veitt heldur fyrst og fremst verið að skerpa á lagaákvæðum hvað réttinn til hennar varðar, en ætti að geta verið unnin áfram í sama formi og undir hatti almenningssamgangna líkt og nú er gert á höfuðborgarsvæðinu.