146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

439. mál
[18:06]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er aftur ekki tilefni til langra ræðuhalda. Ég á þess kost sem nefndarmaður í velferðarnefnd að fjalla um þessi mál þar þannig að ég get látið nægja hér örstuttar hugleiðingar.

Ég fagna í fyrsta lagi þessu frumvarpi. Það er gott að þessi mál komi fram saman og verði til skoðunar saman í nefnd, það mál sem við ræddum áðan og þetta, og í sjálfu sér ágætt líka að fjármálaáætlun er opin enn sem komið er. Auðvitað hefði verið afar æskilegt að fá þessi mál mun fyrr fram, þ.e. ef á að reyna að gera atrennu að því að afgreiða frumvörpin á þessu vori, sem maður hlýtur að hafa fyrirvara á, ekki vegna þess að maður vilji ekki málunum vel og gera það sem mögulegt er en það þarf líka að vanda þetta verk. Þar kemur inn á hlut sem ég held að sé óhjákvæmilegt að nefna.

Ég hef sterka tilfinningu fyrir því að meðal fatlaðs fólks í landinu og samtaka þeirra og talsmanna séu miklar væntingar um að nú verði veruleg bragarbót gerð á í þeim efnum og það er eðlilegt. Þessi samtök hafa barist fyrir innleiðingu samningsins um réttindi fatlaðs fólks um langt árabil og rekið á eftir því sem eðlilegt er, að Ísland ræki af sér slyðruorðið og kláraði það verk sem við erum orðin skammarlega sein til að gera. Menn hafa bundið miklar vonir og binda enn við það að með því verði veruleg tímamót í málaflokknum. Ég vil trúa því að þau séu að verða, ekki síst vegna þess að nálgunin er að gjörbreytast og hugmyndafræðin, sem hæstv. ráðherra kom aðeins inn á, er önnur. Nú er tekinn útgangspunktur í rétti fatlaðra til sjálfstæðs lífs og þar horft til 19. gr. samningsins. Það er lagt upp úr samráði við notendurna og sjálfsákvörðunarrétt þeirra, eins og hér er komið inn á, varðandi meginmarkmið eða meginreglurnar sem eru leiðbeinandi og lesa má út úr samningnum.

Það má kannski segja að verði þetta að veruleika eins og andi samningsins boðar séu loksins að verða innstæður fyrir slagorði Öryrkjabandalagsins um árabil: Ekkert um okkur án okkar. Ef þessi mál yrðu hér eftir unnin í nánu samráði við viðkomandi og samtök þeirra og talsmenn væri það veruleg bragarbót.

Á nokkrum stöðum er komið inn á viðleitni, og hana bar á góma í andsvari áðan, sem er til þess að eyða eftir atvikum gráum svæðum sem verið hafa í þessum efnum milli ríkis og sveitarfélaga, hafandi þó sagt fyrr í umræðunni að ég tel náttúrlega að menn eigi að horfast í augu við að þetta er og verður alltaf samstarfsverkefni beggja stjórnsýslustiganna og það er minna en ekkert að því þegar svona málaflokkur á í hlut. Eftir sem áður er eðlilegt að leitast við að hafa viðmiðanir eins skýrar og kostur er. Ég staldra þar við eitt atriði sem hefur aðeins slegið mig og það er orðalagið hér um það hvar við erum komin út úr hinni almennu þjónustu og yfir í meira sértæka aðstoð. Talað er um að gengið sé út frá því þegar þjónustuþarfir verði meiri en sem nemur 10–15 tímum á viku. Það er dálítið bil í því. Maður veltir auðvitað fyrir sér hvort þarna sé hægt að nálgast málin með eitthvað skýrari afmörkun, hvort sem það væri fastara viðmið eða eitthvert mat eða önnur slík aðferð. Ég er að hugsa upphátt vegna þess að ég þekki það af reynslunni að þarna gætu átt eftir að koma upp landamæri síðar meir sem valda núningi.

Nú er það alveg ljóst að sveitarfélögin eru að uppistöðu til algerlega ábyrg fyrir og eiga að fjármagna með þeim tekjustofnum sem þeim hafa verið færðir hinn almenna þátt. Ríkið kemur svo að þátttöku við hin sérhæfðari og dýrari úrræði. Þess vegna er ekki flókið mál að láta sér detta í hug að það gæti verið tilhneiging hjá öðrum aðilanum að ýta verkefnum yfir einhver ósýnileg landamæri ef þau eru mjög fljótandi, yfir í það að kostnaðarhlutdeild ríkisins komi til sögunnar. Þetta er eitt af atriðunum sem við í velferðarnefnd getum vel lagst yfir. Ég veit ekki hversu vel eða skýrt þetta er hugsað í tillögum starfshópsins eða hópanna, ég hef ekki skoðað það nógu vel sjálfur. Hæstv. ráðherra kann kannski einhver betri svör við því, en það vakti athygli mína þegar ég sá þetta í textanum og hæstv. ráðherra las þetta reyndar upp í framsöguræðu sinni. Þetta er ekki nákvæm afmörkun ef það er fljótandi að þetta sé einhvers staðar á bilinu 10–15 klukkutímar á viku.

Til þess að vera ekki að röfla mikið meira um þetta vil ég að lokum nefna kostnaðinn. Það er svolítið í mótsögn við það að í þessu máli sé fólgin sú verulega úrbót sem vissulega er að hluta til hugmyndafræðilegs eðlis og hvað nálgunina snertir, en þetta á líka að taka á stjórnkerfinu, meðferð og úrlausn ágreiningsmála og kærumála innan kerfisins, stóraukins samráðs við notendur og notendaráð, breytta skilgreiningu frá því sem hér var rætt áðan, einhvers konar félagslegri heimaþjónustu yfir í almenna stuðningsþjónustu, sem ég tel að sé mjög mikilvægt og hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir nefndi einmitt áðan, ef þetta allt ásamt með mörgu fleiru getur orðið til verulegra bóta án þess að það kosti nokkurs staðar eiginlega krónu. En það er meginniðurstaðan hér í kostnaðarmatinu að kostnaðurinn sé það óverulegur og hafi það lítil áhrif á fjárhag sveitarfélaganna að það leiði ekki til þarfa fyrir framlaga af hálfu ríkisins.

Nú ber að vísu svo við að aldrei þessu vant virðast sveitarfélögin ekki gera athugasemdir við þetta kostnaðarmat. Það er gott. Þá höfum við það. En þó er sá varnagli sleginn, af því að menn átta sig á að útgjaldaþróunin er mjög óviss, að setja á laggirnar samráðsnefnd sem fylgist með þróun kostnaðar við þjónustuna næstu þrjú til fimm árin. Ég er ekki að segja að það sé nein betri leið í stöðunni og í raun og veru hallast ég að því að þetta sé það sem er skynsamlegast. Þá er það mjög svipuð nálgun og farin var þegar málaflokkurinn var í heild sinni á sínum tíma, árið 2011, fluttur frá ríki til sveitarfélaga. Menn horfðust í augu við verulega óvissu varðandi það hver útgjaldaþróun yrði og settu upp aðlögunartímabil með ýmiss konar þátttöku ríkisins og eingreiðslum inn í breytingarnar og síðan settust menn yfir það og mátu útkomuna, að vísu eftir dálitla hnökra og ágreining, en náðist nú í það ágæt niðurstaða samt, í bili a.m.k., á síðasta ári.

Þetta var það sem ég vildi staldra við, virðulegur forseti. Ég lýsi miklum vilja og jákvæðni af minni hálfu til að takast á við það verkefni að reyna að leiða þetta allt saman í lög með farsælum hætti, hvort sem það er raunhæft að það náist fyrir vorið eða ekki.