146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

húsnæðissamvinnufélög.

440. mál
[18:16]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um húsnæðissamvinnufélög. Hér er í sjálfu sér nokkuð einfalt mál á ferðinni. Þetta frumvarp var samið í velferðarráðuneytinu að höfðu samráði við fjármála- og efnahagsráðuneytið, auk þess sem það var sent í umsögn til húsnæðissamvinnufélaganna, Búseta, Búfestar og Búmanna. Á meðal þessara aðila var einhugur um þá leið sem farin er í frumvarpinu að því er varðar fjármögnunarmöguleika félaganna.

Í einföldu máli snýst frumvarpið fyrst og fremst um það að þessi félög geti, auk annarra fjármögnunarúrræða, stuðst við skuldabréfaútboð, en við endurskoðun laga á sínum tíma féll slík fjármögnunarheimild út.

Það þykir binda hendur húsnæðissamvinnufélaga með of víðtækum hætti þegar kemur að lántökum þar sem ákvæðið er bundið við lán hjá fjármálafyrirtækjum og lánastofnunum eins og það stóð hér áður, stendur það í vegi fyrir að félögin geti fjármagnað sig með öðrum hætti sem kann að henta þeim betur og vera hagstæðara fyrir þau.

Í frumvarpinu er sum sé lagt til að húsnæðissamvinnufélögum verði áfram heimilt að taka lán hjá fjármálafyrirtækjum og lánastofnunum ásamt því að taka við styrkjum og framlögum frá samstarfsaðilum. Enn fremur er lagt til að þeim verði heimilt að taka lán á almennum markaði, auk þess að fjármagna sig með útgáfu skuldabréfa. Félögin geta þá kosið fjármögnun sem er hagstæðust og hentar best hverju sinni með hagsmuni félagsmanna í fyrirrúmi, auk þess að taka tillit til þeirrar áhættu sem fylgir fjármögnuninni. Með þessu er þá stuðlað enn frekar að sjálfbærum rekstri slíkra félaga, sem aftur eykur húsnæðisöryggi búseturéttarhafa.

Að lokinni umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hæstv. velferðarnefndar.