146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

fjármálafyrirtæki og opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

126. mál
[18:27]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Smári McCarthy) (P):

Herra forseti. Minni hluti nefndarinnar leggst gegn breytingartillögu meiri hlutans. Reynslan sýnir að afhjúpendur taka á sig verulega áhættu þegar þeir upplýsa um brot og geta meðal annars átt á hættu að missa atvinnu sína og verða fyrir öðru fjárhagslegu tjóni. Vissulega er til bóta að í frumvarpinu er gert ráð fyrir að gætt sé trúnaðar um þá sem tilkynna um brot og að þeir njóti verndar gagnvart misrétti. En í framkvæmd er þó útilokað að girða með öllu fyrir að nöfn þeirra leki út og þeir sæti hefndaraðgerðum eða öðru misrétti. Nafnlausar tilkynningar geta verið eina aðferð fólks til að upplýsa um brot án þess að leggja sjálft sig í hættu.

Eins og rakið var hér fékk nefndin starfsmenn Persónuverndar á sinn fund. Þeir bentu á að nafnlausar tilkynningar gætu gert rannsókn mála erfiðari og leitt til þess að röngum tilkynningum verði beitt til að koma höggi á aðra innan fyrirtækja. Minni hlutinn bendir á móti á að líkur eru á að tilkynningum fækki ef ekki eru aðgengilegar leiðir til að koma nafnlausum tilkynningum á framfæri, sem dregur líka úr líkum á að upp komist um brot á annað borð. Ótvíræð gögn um brot tala sínu máli þótt þeim sé komið til skila nafnlaust. Tilraunir til að koma höggi á menn með því að afhenda rangar upplýsingar eru aftur á móti ólíklegar til að skila árangri vegna þess að hið sanna mun að lokum koma í ljós.

Ekki verður litið fram hjá því að ef ekki er skýr heimild til að tilkynna nafnlaust um brot innan fyrirtækja gætu nafnlausar ábendingar fremur ratað til fjölmiðla, sem er varla í þágu viðkomandi fyrirtækis. Meiri hluti nefndarinnar bendir á að brottfall vísana í nafnlausar tilkynningar feli ekki í sér bann við nafnlausum tilkynningum. Brottfallið getur aftur á móti leitt til þeirrar rangtúlkunar að fjármálafyrirtækjum verði óheimilt að greiða fyrir nafnlausum tilkynningum, svo sem með vefgáttum fyrir nafnlausar tilkynningar. Það er ekki að ástæðulausu sem önnur Evrópuríki, á borð við Danmörku og Þýskaland, hafa sérstök ákvæði um ferla fyrir nafnlausar tilkynningar í útfærslum sínum á þessum lögum.

Frumvarpið byggir, eins og komið hefur fram, á 71. gr. tilskipunar 2013/36/ESB. Í þeirri grein sem ætlunin er að innleiða er skýrt kveðið á um að uppljóstrarar skuli hafa vernd persónuupplýsinga sinna og njóta nafnleyndar nema önnur innlend lög geri kröfu um að nafnleynd verði afnumin vegna frekari rannsókna eða málaferla. Með því að afnema heimildir starfsmanna til að koma á framfæri tilkynningum nafnlaust erum við efnislega að víkja frá ákvæðum tilskipunarinnar. Það er ekki alveg nógu gott. Hver væri tilgangurinn með að innleiða þetta ákvæði ef við ætluðum að brjóta gegn skyldu okkar sem aðildarríkis að EES-samningnum til að virða efni þess?

Frumvarpið er upprunalega lagt fram þannig að starfsmenn fjármálafyrirtækja geti komið tilkynningum sínum á framfæri nafnlaust. Í raun er meiri hluti nefndarinnar að leggja til breytingu þar sem ekki verði tryggt að fólk geti komið tilkynningum á framfæri nafnlaust. Í raun myndi ég segja að breytingartillaga meiri hlutans gangi algerlega gegn tilgangi upprunalega frumvarpsins.

Í íslenskri réttarframkvæmd er nú þegar ákveðin vernd fyrir uppljóstrara. Í III. kafla reglna innanríkisráðuneytisins, um sérstakar aðferðir og aðgerðir lögreglu við rannsókn sakamála, er fjallað um uppljóstrara. Í 11. gr. þar segir, með leyfi forseta:

„Tryggja skal nafnleynd uppljóstrara og trúnað gagnvart honum á öllum stigum rannsóknar og eftir að rannsókn lýkur. Upplýsingum um nafn, kennitölu, heimilisfang og öðrum persónurekjanlegum upplýsingum skal haldið leyndum í rannsóknargögnum.“

Í 9. gr. segir einnig, með leyfi forseta:

„Uppljóstrari er einstaklingur sem gefur lögreglu upplýsingar um afbrot eða menn sem tengjast brotastarfsemi og getur ætlast til nafnleyndar. Gerður er greinarmunur á uppljóstrara, þ.e. annars vegar þeim sem er í föstu upplýsingasambandi við lögreglu og hins vegar uppljóstrara sem gefur lögreglu upplýsingar án þess að til eiginlegs upplýsingasambands sé stofnað.“

Lögregla vinnur þannig að uppljóstrarar geti notið nafnleyndar. Af hverju þarf annað að gilda um Fjármálaeftirlitið eða innan fjármálafyrirtækja? Einnig má benda á ákvæði um vernd heimildarmanna í fjölmiðlum, samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga um fjölmiðla.

Þrátt fyrir að lög séu sett um að uppljóstrari geti dulið nafn sitt, um að upplýsingar um hann þurfi ekki endilega komið fram, en geti komið fram og verið skráðar og nafnleyndin afnumin og afmáð í þágu rannsóknarhagsmuna, er enn til í stöðunni sá tæknilegi möguleiki að uppljóstrari dylji nafn sitt þegar hann leggur fram ábendingu til Fjármálaeftirlitsins. Fyrir vikið hefur þetta ákvæði lítil áhrif önnur en þau að fæla mögulega uppljóstrara frá því að koma tilkynningum á framfæri við Fjármálaeftirlitið. Það að bjóða upp á nafnleynd eykur í raun þá öryggistilfinningu þeirra sem gætu viljað koma upplýsingum á framfæri, sem er gríðarlega mikilvægt þegar verið er að tala um að reyna að koma upp um hugsanlega brotastarfsemi.

Það eru því fjölmargar og góðar ástæður fyrir því að við ættum ekki að gera þessar breytingar. Að framangreindu virtu leggur minni hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.