146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði.

217. mál
[18:43]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Eins og hv. þm. framsögumaður meiri hlutans, Jón Steindór Valdimarsson, fór yfir í ræðu sinni áðan er hér um alveg feikilega yfirgripsmikið mál að ræða sem snýst um að lögfesta evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði sem ætlað er að vernda hagsmuni almennings, tryggja betra regluverk um fjármálamarkaðinn og stuðla að ákveðnum stöðugleika á hinum evrópska fjármálamarkaði, á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins. Þarna er verið að leggja til fjórar nýjar stofnanir. Evrópusambandið hefur í raun þegar gengið frá stofnun nýrra stofnana sín megin sem munu snúast um bankaeftirlit, vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlit, verðbréfamarkaðseftirlit og kerfisáhætturáð. Eins og kunnugt er var ákveðið eftir töluvert miklar umræður á vettvangi EFTA og sameiginlegu EES-nefndarinnar og viðkomandi ráðherra milli EFTA-ríkjanna og Evrópusambandsríkjanna að fara svokallaða tveggja stoða leið þar sem gert er ráð fyrir að Eftirlitsstofnun EFTA sé sú stoð sem sé starfandi EFTA-megin og sinni þeim hlutverkum sem bankaeftirlitsstofnuninni, vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnuninni, verðbréfamarkaðseftirlitsstofnuninni og kerfisáhætturáði var ætlað að sinna.

Það er hárrétt sem fram kom hjá hv. þingmanni, í því er verið að feta einstigi um það hvort við erum hér í raun að ganga of langt í framsali valdheimilda, því að hér er auðvitað um verulegt framsal valdheimilda að ræða þar sem Fjármálaeftirlitinu, öðrum stjórnvöldum, einstaklingum og lögaðilum er nú heimilt að veita evrópskum eftirlitsstofnunum upplýsingar og gögn, eins og nánar er kveðið á um í þessum eða öðrum lögum. Þar með er evrópskum eftirlitsstofnunum líka heimilt að veita Eftirlitsstofnun EFTA, eða eftir atvikum öðrum stofnunum innan EES-svæðisins, aðgang að upplýsingum. Þarna er um að ræða verulega miklar heimildir sem lúta að því að veita upplýsingar en um leið er Eftirlitsstofnun EFTA faldar talsverðar heimildir til þess að taka ákvarðanir sem hafa áhrif á íslenskan fjármálamarkað.

Um þetta langar mig að segja tvennt: Ég tel og fram kemur fram í nefndaráliti minni hlutans að aukin áhersla á eftirlit með fjármálamarkaði sé eðlileg og að mörgu leyti mjög sjálfsögð viðbrögð við fjármálahruninu. Ég vil í fyrsta lagi segja um það að tekist var mjög harkalega á um hvort þær gerðir sem hér voru innleiddar síðastliðið haust stönguðust á við stjórnarskrá Íslands, þ.e. hvort framsal þeirra valdheimilda sem kveðið er á um í þessum gerðum væri það umfangsmikið að það stangaðist í raun á við íslensku stjórnarskrána. Það er löng og mikil saga. En mér finnst sérstaklega mikilvægt að benda á í því samhengi að í Noregi var þessi innleiðing metin sem svokallað meiri háttar framsal, sem kallar á stuðnings aukins meiri hluta þingmanna, eða þriggja fjórðu hluta þingmanna, en þessar gerðir voru innleiddar á sama tíma í Liechtenstein, á Íslandi og í Noregi, og Noregur er það ríki sem við berum okkur helst saman við innan þessa ríkjasambands, EFTA. Innleiðingin var svo samþykkt á endanum í Noregi og hlaut náð fyrir verulega auknum meiri hluta, en veruleg umræða og talsverð átök urðu um það hvort gerðirnar fælu í sér framsal valdheimilda til yfirþjóðlegs valds. En hér á Íslandi erum við ekki með neitt ákvæði í stjórnarskrá, eins og hv. framsögumaður benti á, þar sem skilgreint er hversu langt megi ganga í að framselja valdheimildir. Við höfum í þinginu á undanförnum áratug, ef ég tek nú bara þann tíma sem ég hef verið hér, hvað eftir annað og allt of oft fengist við innleiðingar þar sem verið er að ganga áfram þann veg að framselja ákveðnar valdheimildir til yfirþjóðlegra stofnana. Spurt er: Ætlum við að halda áfram þessu ferli? Allir viðurkenna að hér sé verið að framselja valdheimildir þótt þær séu á afmörkuðu sviði. Við erum ekki með heimild í stjórnarskrá til að framselja slíkar heimildir. Í áfangaskýrslu stjórnarskrárnefndar á síðasta kjörtímabili segir, með leyfi forseta:

„… þótt heimild til framsals ríkisvalds til alþjóðastofnana hafi talist vera fyrir hendi að vissu marki samkvæmt ólögfestum reglum íslenskrar stjórnskipunar, hefur aukin þjóðréttarleg samvinna, einkum samvinna á sviði EES-samningsins á síðustu árum, skapað vafamál um nákvæmar heimildir og í sumum tilvikum orðið tilefni deilumála.“

Þetta mælir með því að reglur stjórnskipunarinnar um þetta efni séu afmarkaðar og skýrðar, enda lagðist ég gegn því á síðasta þingi að þetta framsal færi fram með þessum hætti, því að ég tel að við séum búin að ganga of langt í að heimila hér á Alþingi framsal valdheimilda á ólíkum sviðum, þótt það sé vissulega alltaf á takmörkuðu sviði. En þegar við horfum á þetta safnast saman tel ég að við séum búin að ganga of langt í þessu. Við skuldum okkur og stjórnarskránni okkar að setja þar inn skýrt ákvæði um hvernig slíku framsali eigi að vera háttað. Ég tel mjög mikilvægt að slíkt ákvæði væri takmarkað, þ.e. tæki eingöngu til framsals valdheimilda á afmörkuðu sviði. Mér urðu það satt að segja alveg gríðarleg vonbrigði þegar skyndilega var fallið frá því í vinnu stjórnarskrárnefndar á síðasta kjörtímabili að halda áfram með vinnu við slíkt ákvæði. Það er ekkert launungarmál að sú krafa kom einna helst fram frá Framsóknarflokknum sem samþykkti slíka ályktun á landsfundi sínum, sem gerði að verkum að þáverandi meiri hluti ákvað hreinlega að falla frá því að slíkt ákvæði kæmi inn í stjórnarskrá.

Mér finnst það umhugsunarefni ef við treystum okkur ekki til að takast á við að ræða það út frá afstöðu okkar til Evrópusambandsins eða hvað það nú er. Ekki vil ég ganga í Evrópusambandið. Það er mér bara algerlega fjarri. En ég vil líka að við séum sátt við það í okkar sinni hvernig við umgöngumst stjórnarskrá okkar. Staðreyndin er sú að við erum í alþjóðlegu samstarfi og eigum við framsal valdheimilda á takmörkuðum sviðum. Við þurfum að vera alveg 100% viss um það í þessum sal að við göngum ekki með þessu á stjórnarskrána.

Þegar innleiðingin var samþykkt á sínum tíma stigu fram stjórnskipunarfræðingar eins og Björg Thorarensen, sem sagði: Það er bara of langt gengið. Ýmsir aðrir voru á annarri skoðun. En á þeim tíma þótti mér sem þetta mál hefði verið afgreitt með allt of miklu hraði. Við vitum að það var gríðarleg pressa frá evrópskum samstarfsaðilum okkar um að við keyrðum þetta í gegn, það væru allir að bíða eftir okkur. En það breytir því ekki að mér fannst ekki vandað nægilega vel til verka í því máli.

Af þeim sökum er mér mjög erfitt að styðja þetta mál þótt markmið lagasetningarinnar séu með þeim hætti sem ég lýsti hér áðan.

Ég nefni líka, og það er hitt atriðið sem mig langar að nefna í framsögu minni um þetta nefndarálit, að ég tek undir þau markmið sem birtast í reglusetningunni. Það er mjög mikilvægt að skýr lög og reglur gildi, að það sé sjálfstætt og virkt eftirlit með fjármálakerfinu. Það er umhugsunarefni hvort ekki þurfi að styrkja eftirlitsverkfærin okkar, eins og Fjármálaeftirlitið, í ljósi þeirra miklu krafna sem við setjum á herðar þess í tengslum við allar þessar innleiðingar í gegnum EES-samninginn. En við þurfum líka að spyrja okkur að því, og það leitar sífellt meira á mig í ljósi þess að við erum með allt þetta regluverk við síðustu kreppu og allir í stjórnmálum segja okkur að næsta kreppa verði aldrei eins og sú síðasta — hér erum við að innleiða mjög tæknilegar, flóknar reglugerðir. Við vitum líka að um leið og við munum ganga frá þessu bíða alls konar sérfræðingar úti í fjármálafyritækjunum sem undirbúa fjármálafyrirtækin í því hvernig þau skuli mæta þessu. Ég veit að vafalaust eru þar allir að vinna samkvæmt þessu af heilum hug. En hver eru hin raunverulegu áhrif á það sem getum kallað gildi fjármálakerfisins? Mun almenningur upplifa breytingar á fjármálakerfinu? Já, það hefur margt breyst. Bara ef við horfum á reglugerðir og lög og annað slíkt. En hefur það eitthvað breyst hvernig við hugsum fjármálakerfið? Ég velti því upp hér í lokin.

Ég vil þó segja að ég tel það hafa verið mjög gott að sitja í efnahags- og viðskiptanefnd þá mánuði sem liðnir eru af þessu þingi að því leytinu til að ég tel mig skynja að allir eru reiðubúnir til að taka ákveðna umræðu um fjármálakerfið sem slíkt. Það er margt gott sem komið hefur fram í umræðum á vettvangi nefndarinnar um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Það er ýmislegt sem hvert og eitt okkar hefur verið að ræða hér, kannski án þess að átta sig á samspili þess við EES-regluverkið. Ég vil nefna hugmyndir um hvernig tryggja megi dreift eignarhald, sem er hugsanlega ekki hægt út frá EES-samningnum. Verið hafa til umræðu hugmyndir í gegnum þingsályktunartillögu sem ég hef lagt fram um aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingarstarfsemi, sem mér finnst mikilvægt að við ræðum líka. Að við ræðum hvar við teljum eðlilegt og hvort við teljum eðlilegt að ríkið beri tiltekna ábyrgð á starfsemi fjármálafyrirtækjanna. Og ef við segjum já við því: Bíddu, á hvaða starfsemi? Á þá ríkið að bera ábyrgð á fjárfestingarbankastarfsemi eða einhverjum afmörkuðum hluta? Það er sú leið sem hefur verið farin í Bretlandi þar sem ríkið axlar í raun og veru ákveðna ábyrgð á því sem lýtur að heimilum og smærri fyrirtækjum en ekki á þeim stærri þáttum. Það er mjög margt ógert að mínu viti í lagasetningu um fjármálaheiminn á Íslandi þar sem við höfum að sjálfsögðu og eðlilega verið hlaðin því að innleiða hið evrópska regluverk.

Ég tel hins vegar að íslensk stjórnvöld megi gera miklu betur í því að skoða sérkenni íslensks fjármálamarkaðar sem eðli máls samkvæmt lýtur að einhverju leyti öðrum lögmálum en sá evrópski, þar sem við erum jafn smá og við erum og áhrifin á almenning jafn mikil og raun bar vitni þegar fjármálakerfið féll síðast. Við skulum vona að það gerist ekki aftur en þetta hljómaði dálítið þannig.

Við þurfum að velta fyrir okkur hvað við viljum gera og hvernig t.d. við viljum tryggja það sem við getum kallað öðruvísi bankastarfsemi. Er nóg að gert í lagaumhverfi um það? Þá vitna ég til þess sem við þekkjum úr samvinnubönkum víða erlendis. Ég notaði tækifærið um daginn til að skoða það þegar ég var stödd erlendis. Þeir eru í gríðarlegri sókn á nýjan leik í Þýskalandi og líka í talsverðri sókn á Norðurlöndunum. Þá eru það kannski sparisjóðir sem eru meira í takt við nútímann en þeir sem við þekktum hér áður fyrr.

Þetta eru allt spurningar sem mér finnst mikilvægt að svara. Ég vil þakka fyrir umræðuna sem verið hefur á vettvangi hv. efnahags- og viðskiptanefndar um þessi mál. En þau aðvörunarorð sem ég segi hér eru: Það er vissulega mikilvægt að standa á bak við þær reglur og það sem reynt er að gera, en við verðum líka að vera meðvituð um að þessar reglur koma ekki endilega í veg fyrir næstu kreppu. Við verðum líka að vera meðvituð um að lagasetning og regluverk duga ekki endilega til ef gildismat og menning er áfram óbreytt. Ég held að við skuldum líka íslenskum fjármálafyrirtækjum það að vanda okkur í þessu máli. Þau eru gríðarlega mikilvæg fyrir atvinnulíf og almenning í landinu. Við erum öll í viðskiptum við íslensk fjármálafyrirtæki. Það skiptir miklu máli og það er áskorun fyrir stjórnvöld og Alþingi að það sem við gerum hér stuðli að því að skapa aukna sátt í samfélaginu um þetta íslenska fjármálakerfi, því að það er auðvitað líka umhugsunarefni hversu hægt hefur gengið. Það er mikið talað um traust á Alþingi en það er líka umhugsunarefni hversu hægt hefur gengið að byggja upp traust á fjármálakerfinu. Þar held ég að við getum gert betur.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Það má því segja að annars vegar séu þessi stóru mál sem varða gildismat fjármálakerfisins og hins vegar hin stjórnskipulegu álitamál sem gera að verkum að við, fulltrúar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, lögðum fram þetta sérálit. Undir það ritar sú sem hér stendur og hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir.