146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði.

217. mál
[18:57]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Jón Steindór Valdimarsson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir hreyfði hér mörgu. Ég ætla ekki að reyna að bregðast við eða fjalla um það allt saman. En ég tek undir það með hv. þingmanni að málið er gríðarlega stórt. Ég hef líka fulla samúð með því sjónarmiði, eins og ég held að hafi komið fram í máli mínu í meirihlutaáliti, að við erum að þræða einstigi í stjórnskipunarlegu tilliti. Ég get ekki annað en tekið undir það með hv. þingmanni að æskilegt væri að þetta væri í betra horfi. Það blasir við, ég get algerlega tekið undir það.

Fyrst vísað var til norsku stjórnarskrárinnar eru Norðmenn svo heppnir að hafa verið aðeins framsýnni en við og eru með ákvæði sem fjallar nákvæmlega um hvernig eigi að standa að breytingum af þessu tagi. Ég held að það hafi því miður staðið þessari umræðu fyrir þrifum, umræðu um að taka upp slíkt ákvæði eða ræða í alvöru til enda, akkúrat það sem hv. þingmaður minntist líka á, aðild að Evrópusambandinu. Hún kvaðst ekki ýkja hrifin af því en ég er aftur öndverðrar skoðunar. Ég held samt sem áður að þetta sé að þvælast fyrir.

Margir líta þannig á að ef við horfumst í augu við hið alþjóðlega samstarf, sem við tökum þátt í, kalli það einfaldlega á þetta, alveg óháð spurningunni um aðild Íslands að Evrópusambandinu eða ekki. Ég tek heils hugar undir þau sjónarmið sem voru viðruð hér enda þótt meiri hlutinn, þar með talið sá sem hér stendur, telji að þetta sleppi fyrir horn að þessu sinni. Þetta þarf að ræða vel. Og almennt talað um traust á fjármálamarkaði tek ég líka heils hugar undir það með hv. þingmanni að það er mjög mikilvægt að okkur takist að efla traust og búa vel að íslenska fjármálakerfinu.